Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar segir að skoða þurfi viðskiptasiðferði fjárfestingarsjóðsins Gamma. Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir allt of snemmt er að segja til um hvort nokkuð ólöglegt hafi átt sér stað eftir að tveir sjóðir í stýringu fjárfestingabankans færðu virði eigna sinna niður um milljarða króna.Málið var rætt í Silfrinu í morgun.
Rætt var um málefni Gamma, sem er í eigu Kviku banka, í þættinum. Brynjar sagðist blása á þær raddir sem hafa fullyrt að þessi eignaniðurfærsla geti haft víðtæk áhrif á samfélagið. Verið væri að mála skrattann á vegginn. „En þegar opinberar framkvæmdir fara yfir, þá á allt að vera í lagi,“ sagði Brynjar í þættinum. „Getur þetta ekki verið þannig að menn hafi gert mistök? Vanmetið markaðinn“
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði að umburðarlyndi fyrir vinnubrögðum sem þessun væri ekkert. Það myndi hafa afleiðingar, ef ekkert yrði að gert.
Brynjar sagði að um leið og þetta kom upp hafi verið byrjað að dylgja um að eitthvað ólöglegt hefði átt sér stað. Sjálfum þætti honum „margt skrýtið“ í málinu; að sjóðirnir hefðu verið færðir svona mikið á fáum mánuðum. Ætti hann fjárhagslegra hagsmuna að gæta þá myndi hann vilja láta velta við hverjum steini.
Þáttastjórnandinn Sigmar Guðmundsson spurði þá annan gest þáttarins, Trausta Hafliðason ritstjóra Viðskiptablaðsins, um hvort þetta væri dæmi um að Fjármálaeftirlitið hefði ekki burði til að taka á málum sem þessum.
Trausti benti á að aðrar reglur giltu um fagfjárfesta en aðra og þetta leiddi í ljós að endurskoða þyrfti það regluverk. Ekki væri hægt að lita fram hjá því að þetta hefði gerst mjög hratt, en ákveðin teikn hefðu þó verið á lofti í fyrra varðandi þessa tilteknu sjóði.
Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra sagði að skoða þyrfti viðskiptasiðferði fjárfestingarsjóðsins. Spyrja þyrfti að því hvert hlutverk Fjármálaeftirlitsins hefði verið. „Hver átti að fylgjast með og hvenær og segja til um að þarna væri eitthvað ekki í lagi? Ég hugsa að það verði líka að skoða viðskiptasiðferði í félaginu og viðskipti við tengda aðila,“ sagði Oddný í þættinum.