Embætti landlæknis flytur á Höfðatorg

Alma D. Möller landlæknir og Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regins …
Alma D. Möller landlæknir og Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regins skrifa undir leigusamning um 1.500 fermetra rými á 6.hæð Höfðatorgs. Ljósmynd/Tinna Jóhanns

Embætti landlæknis flytur á 6. hæð Höfðatorgs í Katrínartúni í nóvember. Embættið og Reginn  fasteignafélag hafa skrifað undir leigusamning þess efnis en Ríkiskaup auglýsti eftir framtíðarhúsnæði fyrir embættið í apríl síðastliðnum. Húsnæðið á Höfðatorgi er 1500 fermetrar og þótti henta vel undir starfsemina, en hjá embættinu starfa hátt í 80 starfsmenn. 

Embætti land­lækn­is flutti starf­semi sína frá Heilsu­vernd­ar­stöðinni á Baróns­stíg á Rauðar­ár­stíg 10 í apríl síðastliðnum. Um var að ræða tíma­bundið hús­næði fyr­ir starf­sem­ina en mygla í hús­næði embætt­is­ins á Baróns­stíg er ástæða flutn­ing­anna. Ágrein­ing­ur er milli land­læknisembætt­is­ins og eig­anda húss­ins um or­sak­ir mygl­unn­ar. 

Reginn fasteignafélag festi kaup á Höfðatorgi á síðasta ári og hefur að undanförnu undirbúið umbreytingu á turninum og leigurýmum sem þar eru. „Það má segja að samningur okkar við Embætti landlæknis marki upphafið að umbreytingarferli Höfðatorgs en við erum að fylla húsið af lífi með sterkum rekstraraðilum og ætlum okkur að auka við þjónustu í húsinu með öflugri tengingu við fyrstu og aðra hæðina þar sem veitingar og þjónusta á að geta þrifist,“ er haft eftir Helga S. Gunnarssyni forstjóri Regins, í tilkynningu. 

Næsti stóri leigutaki sem mun flytja á Höfðatorg er Kvika sem stefnir á að hefja starfsemi í húsinu á svipuðum tíma og Landlæknir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert