Fór yfir efni frumvarps með ríkislögmanni

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Hari

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi í kvöld að nálgun ríkislögmanns í dómsmálum vegna bóta í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu myndi breytast ef frumvarp hennar um greiðslu bóta næði fram að ganga.

Katrín mælti fyrir frumvarpinu um greiðslu bóta vegna sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Hún sagði frumvarpið fyrst og fremst snúa að bótum handa þeim sem voru ranglega dæmdir þótt ljóst sé að fjármunir geti aldrei bætt fyrir það ranglæti sem hinir sýknuðu urðu fyrir.

„Sú hugsun býr að baki að ríkið eigi að bæta fyrir það tjón sem aðilar hafi orðið fyrir, það sé sanngirnis- og réttlætismál.

Verði frumvarpið samþykkt fái hinir sýknuðu bætur vegna ranglátrar meðferðar opinbers máls. Bæturnar yrðu auk þess greiddar án þess að til dómsmáls kæmi og án kröfu um að fallið yrði frá dómsmáli.

Forsætisráðherra benti þó á að bótagreiðslur samkvæmt frumvarpinu geti dregist frá bótagreiðslum úr dómsmálum. 

„Horft verður til þeirrar fjárhæðar sem rædd var við aðila fyrr á þessu ári, samtals um 700-800 milljónir króna,“ sagði Katrín.

Katrín sagði ljóst að ef frumvarpið yrði að lögum muni það að sjálfsögðu hafa áhrif á málatilbúnað ríkislögmanns. Hún fór yfir efni frumvarpsins á fundi með honum í síðustu viku. „Þar kom fram að hann myndi breyta nálgun sinni í málflutningi í ljósi þessa frumvarps sem við ræðum hér í dag verði það að lögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert