Mikil hagræðing er talin felast í því að lögfesta að í hverju sveitarfélagi búi minnst 1.000 íbúar. Hugmyndin er að setja lágmarkið fyrst við 250 íbúa og hækka það svo í áföngum.
Þetta mun leiða til verulegrar fækkunar sveitarfélaga, segir í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag. Færri en 1.000 íbúar eru nú í meira en helmingi sveitarfélaga en þau eru nú 72 að tölu. Talið er að hagræðingin af sameiningu geti mögulega numið allt að 3,6 til 5 milljörðum króna á ári. Mæla á fyrir tillögu til þingsályktunar um „stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga“ á Alþingi síðar í þessum mánuði.
Karl Magnús Kristjánsson, oddviti og sveitarstjóri Kjósarhrepps, sem er fámennasta og víðfeðmasta sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu, sagði að taka yrði tillit til fjárhagsstöðu ekki síður en íbúafjölda.
„Kjósarhreppur er dæmi um sveitarfélag sem hefur staðið mjög vel á síðustu árum. Fyrirtæki sem hreppurinn stofnaði tókst að reisa mjög umfangsmikla hitaveitu sem er tengd um 600 notendum í frístundahúsum og íbúðarhúsum. Það var fjárfesting upp á 1,1 milljarð. Nú erum við að ljúka við að tengja sveitina við ljósleiðara sem er fjárfesting hjá okkur fyrir yfir 200 milljónir,“ sagði Karl. Hann sagði að þeim hentaði vel að vera sjálfstætt sveitarfélag. Þau eru í samstarfi við Reykjavíkurborg og Mosfellsbæ um þjónustu sem er greidd fullu verði. Karl sagði að meirihluti sveitarstjórnar teldi að sameining við annað sveitarfélag væri ekki tímabær hvað þau varðaði.