Hlaupinu í Múlakvísl er lokið. Rafleiðni er komin í eðlilegt horf miðað við árstíma og rennsli hefur minnkað, að því er segir í athugasemd sérfræðings á Veðurstofu Íslands.
Hlaupið hófst í lok september og mældist rafleiðni hæst í kringum 300 míkrósímens á sentimetra (míkróS/cm), en venjuleg rafleiðni í ánni er í kringum 100 míkróS/cm.
Hlaup af þessari stærðargráðu eru vel þekkt í Múlakvísl en mikil gasmengun fylgdi hins vegar hlaupinu að þessu sinni og mældist gasmengun yfir heilsuverndarmörkum á þriðjudaginn í síðustu viku.
Veðurstofan, almannavarnir og viðbragðsaðilar á svæðinu fylgdust með framvindu mála á meðan hlaupinu stóð og telja nú fullvíst að hlaupinu sé lokið.