Katrín klökknaði í ræðustól

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpi um greiðslu bóta vegna …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpi um greiðslu bóta vegna sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umræður um frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um greiðslu bóta vegna sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu urðu tilfinningaríkar eftir því sem leið á umræðuna í kvöld, en ráðherra mælti fyrir frumvarpinu í kvöld. 

Katrín sagðist með frumvarpinu vera að hlíta mjög skýrum ráðum þeirra sem fóru með umboð ríkisins í því verkefni að ná samkomulagi við alla aðila í máli sakborninganna í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu sem voru sýknaðir í endurupptöku málsins fyrir ári. 

„Þess vegna er þetta frumvarp komið hingað inn. Hér er ekki verið að biðja þingmenn háttvirta að taka þátt í efnislegri umræðu um inntak máls eða fara hér í einhver yfirboð á fjárhæðum, það er ekki ætlunin með þessu frumvarpi. Og mér þykir það leitt ef háttvirtir þingmenn gera mér það upp, hér,“ sagði Katrín, og brast rödd hennar lítillega þar sem hún klökknaði.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, kvaddi sér hljóðs áður en Katrín mælti fyrir frumvarpinu og sagði að hann teldi það með öllu óeðlilegt að verið væri að taka málið fyrir á vettvangi þingsins. 

Katrín sagðist ekki geta fallist á þann málflutning. Hún sagðist vera síðasta manneskjan til að óska þess að málið „fari í einhverjar flokkspólitískar skotgrafir og mér þykir leitt ef fólk telur að það sé ætlan mín með framlagningu frumvarps,“ sagði hún. 

Ræðuna í heild sinni má sjá hér að neðan:



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert