Sjö ár fyrir ítrekuð brot gegn syni sínum

Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag karlmann á sextugsaldri í sjö ára fangelsi fyrir nauðgun og önnur kynferðisbrot gagnvart barnungum syni sínum. Maðurinn var dæmdur til að greiða syninum þrjár milljónir króna í miskabætur.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að brot mannsins hafi verið alvarleg og beinst að mikilverðum hagsmunum. „Beitti hann barnungan son sinn kynferðislegu ofbeldi árum sama. Voru brotin framin í skjóli trúnaðartrausts sem ríkti á milli ákærða og brotaþola. Á ákærði sér engar málsbætur.“

Gefin var út ákæra á hendur manninum í maí á þessu ári eftir að drengurinn kom á lögreglustöð í október fyrir tveimur árum til að leggja fram kæru á hendur föður sínum fyrir kynferðisbrot.

Í ákæru kemur fram að maðurinn nauðgaði syni sínum og braut gegn honum með öðrum hætti á árunum 1996-2003, þegar sonurinn var fjögurra til ellefu ára. Faðirinn nýtti sér yfirburði sína gagnvart drengnum en brotin hófust skömmu eftir að faðirinn og móðir drengsins slitu samvistum.

Auk kynferðisofbeldis kom fram í máli drengsins að faðir hans hafi hótað honum með hnífi í því skyni að hann segði ekki frá ofbeldinu. Honum var hótað lífláti og var drengurinn lokaður inni í herbergi eftir að brotin áttu sér stað. Þá var brotið á drengnum þegar hann var í baði.

Meðal áhrifa brota á drenginn, sem er öryrki í kjölfar þeirra, er hræðsla við að nota hnífa, óþægindi í lokuðu rými og innilokunarkennd. Þá er hann hræddur við að fara í baðkar.

Maðurinn neitaði sök og verjandi hans krafðist þess að hann yrði sýknaður og að málsvarnarlaun yrðu greidd úr ríkissjóði.

Framburður drengsins einlægur og trúverðugur

Fram kemur í niðurstöðu dómsins að framburður drengins hafi verið fyrir dómi nokkurn veginn á sama veg og þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu. Hann hafi verið einlægur og trúverðugur í frásögn sinni. Bent er á að barnalæknir sem annast hefur drenginn frá unga aldrei telur að ekki sé ástæða til að efast um minningar hans.

Hins vegar sé ekki hægt að segja það sama um manninn, sem hafi verið ótrúverðugur í framburði sínum. Hann hafi til að mynda neitað því að hafa lokað drenginn inni en vitnisburður uppeldisdóttur mannsins og fyrrverandi maka bendi til hins andstæða. Önnur vitni, til að mynda kennari drengsins og móðir hans, staðhæfa einnig að pabbahelgar hafi valdið drengnum vanlíðan.

Maðurinn eigi sér engar málsbætur og hæfileg refsing að mati dómsins er sjö ára fangelsi. Auk þess er manninum gert að greiða syni sínum þrjár milljónir króna í miskabætur, auk vaxta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert