Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir íslensk stjórnvöld hafa miklar áhyggjur af því að Tyrkir ætli sér að ráðast inn í norðausturhluta Sýrlands. Ákvörðunin geti haft áhrif á heimsvísu, þá helst ef hryðjuverkasamtökin ISIS spretta aftur upp.
Bandarískar hersveitir hafa hafist handa við að flytja hersveitir sínar frá norðurhluta Sýrlands og landamærum Tyrklands. Með því er leiðin greið fyrir Tyrki að ráðast gegn Kúrdum við landamærin. Kúrdar voru helstu bandamenn Bandaríkjahers í stríðinu gegn Ríki íslams í Sýrlandi.
„Afstaða okkar er alveg skýr. Við höfum miklar áhyggjur af því að Tyrkir ætli að ráðast inn,“ segir Guðlaugur.
„Við höfum áhyggjur af þessu vegna fyrirséðra áhrifa, meðal annars á almenna borgara. Við höfum líka áhyggjur af því að ef að árásir verða á Kúrda þá geti það leyst hryðjuverkasamtökin ISIS aftur úr læðingi. Sýrlenskir Kúrdar hafa staðið fylkingarbrjóst í baráttunni við samtök sem eru illnefnd.“
Nú hefur Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hótað Tyrkjum að rústa efnahag þeirra ef Tyrkir gangi lengra en eðlilegt er. Bæði ríkin eru í NATO. Spurður hvað geti gerst þegar eitt NATO ríki hótar öðru slíkum aðgerðum segir Guðlaugur:
„Þetta er bara mjög viðkvæmt ástand. Þetta var tekið upp á vettvangi NATO í fastaráði í dag. Við erum ekki einir um að hafa áhyggjur af þessu. Við höfum áður tekið þetta upp á vettvangi NATO og beint við Tyrki líka. Þetta er einhliða aðgerð af þeirra hálfu og fer ekki fram í umboði eða með samþykki Atlantshafsbandalagsins, það liggur alveg fyrir.“
Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur óskað eftir því við Guðlaug að hann komi fyrir utanríkismálanefnd vegna málsins. Guðlaugur er nú staddur erlendis en hann segir sjálfsagt að hann verði við ósk Loga fljótlega eftir heimkomu.
Spurður hvort Ísland geti haft einhver áhrif á ástandið segir Guðlaugur: „Það sem við höfum haft fram að færa fram til þessa er okkar rödd, það hefur ekkert breyst og mun ekki breytast.“