Yfirmaður heimsminjanefndar UNESCO hefur sent íslenskum stjórnvöldum bréf er varðar kvörtun sem nefndinni hefur borist vegna verndunar Þingvalla.
Hefur stjórnvöldum verið gert að veita upplýsingar um ferðamannaiðnað í tengslum við Silfru, en kvörtunin snýr að því að sjö köfunarfyrirtæki fái aðgang að gjánni í hagnaðarskyni og þar kafi allt að 76.000 manns á ári með neikvæðum afleiðingum fyrir ásýnd og lífríki Silfru.
Þar séu gróðasjónarmið tekin fram yfir verndarsjónarmið, segir Jónas Haraldsson lögmaður, sem sendi UNESCO kvörtunarbréfið.
Samkvæmt kvörtuninni, sem send var UNESCO í byrjun ágúst, brýtur starfsemin í bága við þau skilyrði sem sett eru stöðum á heimsminjaskrá UNESCO og er þess krafist að úrbætur verði gerðar, þ.e. að starfseminni verði hætt, ellegar verði Þingvellir fjarlægðir af heimsminjaskrá.
Þingvellir voru fyrsti íslenski staðurinn á heimsminjaskrá, en síðar bættust við Surtsey og á þessu ári var Vatnajökulsþjóðgarði bætt á listann.