Tólf þingmenn Samfylkingar, Pírata, Flokks fólksins og Viðreisnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi feli mennta- og menningarmálaráðherra að fella niður ábyrgðir á námslánum sem voru veitt fyrir 31. júlí 2009.
Fram til ársins 2009 þurfti lántaki að fá einhvern annan til að ábyrgjast lánið. Því var breytt árið 2009 en ábyrgðum á lánum veittum fyrir breytingar var ekki aflétt.
Í greinargerð vegna tillögunnar kemur fram að mörg dæmi séu um að ábyrgð á eldri lánum hafi valdið fólki alls konar vandræðum jafnvel áratugum eftir að skrifað var undir og tengsl milli lántakanda og ábyrgðarmanns höfðu jafnvel gerbreyst.
Að undanförnu hafi auk þess fallið dómar sem leiða í ljós vankanta á núgildandi fyrirkomulagi. Þeir hafi t.d. leitt í ljós að ábyrgðarmenn námslána njóti ekki jafnræðis við ábyrgðarmenn annars konar lána í fjármálakerfinu.