Framkvæmdir við Grósku-Hugmyndahús sem nú rís í Vatnsmýri eru langt komnar en gert er ráð fyrir að CCP flytji höfuðstöðvar sínar í bygginguna í febrúar. Þá hefur verið tilkynnt um að World Class verði með heilsurækt á staðnum.
Það er byggingarfyrirtækið Arnarhvol sem er að stórum hluta í eigu Björgólfs Thor Björgólfssonar sem annast framkvæmdir. Verkefnið er hluti af Vísindagörðum HÍ og er unnið í samvinnu við skólann.
Á fyrstu hæð verður þjónustustarfsemi og ráðstefnusalur en CCP verður með aðstöðu á þriðju hæð hússins. Einyrkjum og fyrirtækjum í nýsköpun, þróun og rannsóknum gefst kostur á að vera með aðstöðu í húsinu en nálægðinni við vísindastarf háskóla er ætlað gera svæðið að miðstöð frumkvöðlastarfsemi.