„Heiður“ að flytja fyrsta íslenska málið fyrir yfirdeild MDE

Mál Gests Jónssonar og Ragnars H. Hall var tekið fyrir …
Mál Gests Jónssonar og Ragnars H. Hall var tekið fyrir í yfirdeild MDE í Strassborg í morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fyrsta íslenska málið var flutt fyrir yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg í dag, mál lögmannana Gests Jónssonar og Ragnars Halldórs Hall gegn íslenska ríkinu. Geir Gestsson lögmaður þeirra segir það vera heiður að koma fyrir yfirdeildina með mál, fyrstur Íslendinga. Niðurstöðu í málinu er að vænta eftir 6-12 mánuði.

„Það er heiður að fá að flytja mál fyrir yfirdeild Mannréttindadómstólsins fyrstur Íslendinga,“ segir Geir í samtali við mbl.is. Segir hann málflutninginn hafa gengið vel og að báðir lögmenn hafi komist vel frá sínu, hann sjálfur og Fanney Rós Þorsteinsdóttir frá ríkislögmanni sem heldur uppi vörnum fyrir íslenska ríkið í málinu.

Málið tengist hinu svokallaða Al-Thani máli Kaupþingsmanna, en þeir Gestur og Ragnar voru sektaðir af ríkinu fyrir að segja sig frá málinu á sínum tíma.

Þeir voru skipaðir verjendur Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar, en áður en að málið var tekið til aðalmeðferðar rituðu þeir bréf til héraðsdóm­ara þar sem þeir lýstu því yfir að þeir myndu ekki sinna frek­ari verj­enda­störf­um í mál­inu þar sem þeir teldu að brotið hefði verið gegn rétti skjól­stæðinga þeirra til rétt­látr­ar málsmeðferðar. 

Héraðsdóm­ari synjaði þeirri beiðni. Þegar aðalmeðferð átti að fara fram mættu þeir ekki til þing­halds, skjól­stæðing­un­um voru þá skipaðir nýir verj­end­ur, aðalmeðferðinni frestað og Gest­ur og Ragn­ar dæmd­ir til að greiða eina millj­ón hvor í sekt.

Þeir áfrýjuðu því til Hæsta­rétt­ar, sem staðfesti ákvörðun héraðsdóms og Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu hafnaði því síðan í októ­ber í fyrra að ís­lenska ríkið hefði brotið á þeim. Gest­ur og Ragn­ar voru ekki sátt­ir við þá niður­stöðu og fóru þess því á leit við yf­ir­deild­ina að hún tæki málið fyr­ir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert