Leit að Björn Debecker, belgíska ferðamanninum, sem talinn er hafa fallið í Þingvallavatn laugardaginn 10. ágúst, hefur nú verið með öllu hætt. Áfram verður þó svipast um, þegar færi gefst.
Þetta segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. Debeckers var síðast leitað um mánaðamótin síðustu og við þá leit kom ekkert fram sem tengdist hvarfi hans. Hlé hafði verið gert á formlegri leit að honum í lok ágúst.
Að sögn Odds munu björgunarsveitir sem reglulega eru við æfingar á vatninu svipast um eftir Debecker. Fundað verður um rannsókn málsins fljótlega og áfram verður gengið um bakka vatnsins.
Debecker var verkfræðingur og tveggja barna faðir og var mikill heimshornaflakkari. Mannlaus kajak hans og bakpoki fundust við Villingavatn laugardaginn 10. ágúst.