Öll miðlunarlón á hálendinu full

Hálslón fylltist í byrjun ágúst.
Hálslón fylltist í byrjun ágúst. mbl.is/RAX

Í upphafi nýs vatnsárs Landsvirkjunar eru öll miðlunarlón á hálendinu full. Landsvirkjun er því í góðri stöðu til að tryggja orkuafhendingu til viðskiptavina sinna á komandi vatnsári, en ef innrennsli verður undir meðallagi í haust getur það haft áhrif á framboð orku frá fyrirtækinu, segir í frétt á heimasíðu Landsvirkjunar.

Það skiptir miklu fyrir fyrirtækið að vatnsbúskapur sé góður. Skemmst er að minnast ársins 2014, þegar vatnsbúskapur var með verra móti og skammta þurfti orku. Tekjutap Landsvirkjunar vegna skerðinga á raforku hljóp á hundruðum milljóna króna.

Nýtt vatnsár hefst hjá Landsvirkjun 1. október ár hvert, en um það leyti eru miðlanir yfirleitt í hæstu stöðu eftir vorleysingar, jöklabráð sumarsins og upphaf haustrigninga. Þegar haustrigningum lýkur og vetur gengur í garð er byrjað að nýta miðlunarforðann. Vatn frá miðlunum stendur undir um helmingi af orkuvinnslu Landsvirkjunar yfir veturinn og fram á vor.

Innrennsli á nýliðnu vatnsári var kaflaskipt og í heild rétt í meðallagi, segir enn fremur í fréttinni. Haustið 2018 var kalt og niðurdráttur hófst óvenju snemma. Við tók síðan mildur vetur, með hlýindaköflum. Staða lóna fyrir vorflóð var því góð. Vorflóðin komu í apríl, fyrr en venja er. Fylling lóna í sumar gekk síðan ágætlega framan af og fylltust Þórisvatn og Hálslón í byrjun ágúst, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert