Segir rafrettur ekki „saklausa neysluvöru“

Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG.
Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG, gerði skaðsemi rafrettna að umfjöllunarefni sínu undir liðnum störf þingsins í dag. Hann sagði að ýmislegt hefði gerst sem ástæða væri til að hafa áhyggjur af síðan lög um rafrettur og áfyllingar tóku gildi í mars.

Í vor, sumar og nú í haust hafa komið fram upplýsingar, m.a. úr ritrýndum læknatímaritum, um skaðsemi rafsígarettna. Bandarísk yfirvöld hafa gripið til ráðstafana til að setja meiri skorður við dreifingu og sölu þeirra og evrópsku lungnalæknasamtökin hafa sagt að ekki sé hægt að mæla með rafsígarettum sem tæki til að hjálpa fólki að hætta að reykja en það voru, eins og margir muna, ein af meginrökunum sem notuð voru í umsögnum og umræðum um málið á sínum tíma,“ sagði Ólafur Þór.

Hann benti á að Læknafélag Íslands hefði á aðalfundi sínum nýverið samþykkt harðorða ályktun gegn rafsígarettum. „Ábyrgð stjórnvalda og þar með þingsins í þessu máli er mikil. Við getum ekki leyft okkur að sitja hjá og bíða eftir því að meiri upplýsingar komi fram. Nú þegar eru komin fram gögn sem krefjast athygli. Ég fagna því að landlæknir og heilbrigðisráðherra hafa brugðist við og vona að þingmenn muni taka vel í að skoða frekari varnir innan ramma laganna,“ sagði Ólafur Þór.

Algengt er orðið að sjá fólk með rafrettur hér á …
Algengt er orðið að sjá fólk með rafrettur hér á landi og víðar. mbl.is/​Hari

Hann sagði að nú væri ljóst að þingmenn hafi ekki sett lög um saklausa neysluvöru, heldur efni sem mögulega geti haft verulega skaðleg áhrif á heilsu þeirra sem nota vöruna. 

Við skulum sérstaklega hafa í huga að æ fleiri grunnskólabörn nota rafsígarettur, börn sem aldrei hafa reykt og hefðu, miðað við öll þau gögn sem liggja fyrir, ekki byrjað að reykja en eru nú orðin vön nikótíni,“ sagði Ólafur Þór.

Hann endaði ræðu sína á því að fara yfir söguna fyrir þingheim:

Þegar á 19. öld höfðu þýskir læknar uppgötvað tengsl milli reykinga og lungnakrabbameins en það tók heilbrigðisyfirvöld nærri því 100 ár að kveikja á perunni. Heróín var fundið upp og markaðssett sem lyf gegn hósta og góð leið til að venja fólk af morfínfíkn í kringum aldamótin 1900. Við ættum að láta þær viðvaranir sem nú hljóma nær daglega um nýjar hættur tengdar rafsígarettum verða okkur hvatningu til að grípa inn í. Áhættan af því að bíða og sjá er einfaldlega allt of mikil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka