Á annað hundrað nemendur í Háskólanum á Akureyra þurfa að hætta námi um áramót. Um er að ræða nemendur sem komast ekki í gegnum fjöldatakmarkanir, en slíkt námsfyrirkomulag er í lögreglufræði, sálfræði og hjúkrunarfræði.
Nemum í lögreglufræði var tilkynnt í gær að mikill meirihluti þeirra sem hófu nám í haust fái ekki áframhaldandi skólavist eftir áramót. Fjörutíu af tæplega 200 sem hófu nám komast áfram í starfsnám á vegum Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar við háskólann eftir fyrstu önnina.
Til stóð að þeir nemendur sem kæmust ekki áfram fengju að sækja um annað nám innan hug- og félagsvísindasviðs ef plássið leyfði. Yfirstjórn háskólans tilkynnti hins vegar í gær að ekki væri hægt að veita öðrum nemendum í lögreglufræði skólavist á vormisseri en þeim 40 sem komast í gegnum takmarkanirnar. Það sama á við nemendur í hjúkrunarfræði og sálfræði, en þeir eru mun færri en nemendur við lögreglufræði sem þurfa að hætta námi.
Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, segir aðgerðirnar ekki beinast beint gegn nemendum í lögreglufræðum. „Vandamálið er að við erum að gera þetta samkvæmt jafnræðisreglu. Við getum ekki á þessum tímapunkti verið með sértækar aðgerðir fyrir ákveðinn hóp. Þetta er ákvörðun um innritun nemenda almennt,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Ákvörðunin sé tekin þar sem nemendur eru það margir í ár að ekki sé rými til að bæta við fleirum á næstu önn. „Á hverju haustmisseri er tekin ákvörðun um hvort við getum heimilað innritun í nýja námsferla um áramót. Með sívaxandi áhuga á skólanum höfum við verið að herða þessi skilyrði og síðustu þrjú ár höfum við ekki innritað nýja nemendur um áramót,“ segir Eyjólfur. Nemendum sem vilja skipta um námsbraut um áramót hefur verið heimilt að gera það en á því verður breyting nú. Aðgerðin er nauðsynleg til að tryggja áframhaldandi gæði náms við Háskólann á Akureyri að sögn Eyjólfs.
„Þegar nemendur fá samþykki um skólavist kemur fram í því samþykki að ef pláss leyfi geti þau mögulega skipt um nám um áramót. Við vorum að fara yfir þær tölur í þessum mánuði og með tilliti til þess umfangs sem við erum með á hverjum tíma var alveg ljóst að við getum ekki heimilað innritun í bakkalárnám og til viðbótar getum við ekki heimilað að fólk skipti um námsleið. Það hefur þau áhrif að ef þú nærð ekki prófum um áramót eða að aðrir eru ofar í tilteknum samkeppnisprófum eins og í hjúkrunarfræði og sálfræði geturðu ekki skipt yfir í annað nám,“ segir Eyjólfur.
1.100 nemendur hófu grunnnám við skólann í haust, um 100 fleiri en reiknað var með. Af þessum 1.100 eru um 600 í námi þar sem einhvers konar samkeppni fer fram. Þessir 600 eru að keppa um 195 sæti. „Haustið byrjaði með fleiri nemendum en við höfðum vonast til að myndu koma til náms á endanum. Þar af leiðandi verðum við að fara varlega í öllum ákvörðunum um frekari innritun,“ segir Eyjólfur.
Aðspurður hvort kerfi líkt og þetta sé ásættanlegt fyrir nemendur segir Eyjólfur að hann telji tímabært að endurskoða skipulag í háskólum. „Og ekki síður í skólakerfinu í heild sinni. Hversu margir eiga að fá aðgengi að háskólum? Hversu oft á fólk að fá að skipta um nám? Við sem þjóð eigum ekki svör við þessum spurningum,“ segir Eyjólfur.