Tvær farþegaflugvélar Icelandair af gerðinni Boeing 737 MAX eru komnar til Spánar hvar þær verða í geymslu í vetur eða þar til hægt verður að taka þær í notkun á nýjan leik.
Þetta segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is.Ekki hefur verið hægt að nota vélarnar undanfarna mánuði vegna kyrrsetningar flugvéla af þessari gerð í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa þar sem slíkar vélar komu við sögu.
Önnur flugvélin, Mývatn, lenti um klukkan 17:30 að íslenskum tíma á flugvelli borgarinnar Lleida á Spáni og hin, Búlandstindur, um tveimur tímum síðar.
Flugvélarnar millilentu á Írlandi til þess að taka eldsneyti.