Hafa fjöllin hækkað?

Ólafur Elíasson í jöklaleiðangri í sumar.
Ólafur Elíasson í jöklaleiðangri í sumar. Ragnar Axelsson

„Ég hafði aug­ljós­lega áhyggj­ur vegna þess að í jarðfræðilegu sam­hengi eru tutt­ugu ár eins og nanó­sek­únda. Fyr­ir vikið var al­veg eins víst að eng­ar breyt­ing­ar hefðu átt sér stað. Satt best að segja var ég að von­ast eft­ir smá­vægi­leg­um breyt­ing­um en á dag­inn kom að þær voru svo mikl­ar að ég iðrast þess nú að hafa ekki gert aðra seríu fyr­ir tíu árum. Ég er í senn undr­andi og sjokk­eraður. Jök­ul­sporðarn­ir hafa ekki aðeins breyst í þeim skiln­ingi að þeir hafa hörfað til muna held­ur hef­ur heild­ar­rúm­mál jökl­anna einnig tekið breyt­ing­um, minnkað.“

Þetta seg­ir Ólaf­ur Elías­son mynd­list­armaður í viðtali í norður­slóðablaði Morg­un­blaðsins, Björg­um heim­in­um, en hann end­ur­tók í sum­ar verk sem vakti mikla at­hygli fyr­ir tutt­ugu árum, Jöklaserí­una. 

„Ég tók mjög fljótt eft­ir þessu vegna þess hvað það var erfitt að fá mynd­irn­ar til að passa,“ held­ur hann áfram. „Fjöll­in beggja vegna jök­ul­sporðanna virkuðu mun hærri, sem fékk mig til að ef­ast um að ég væri á rétt­um stað þegar ég horfði á gömlu mynd­irn­ar. Það er ekki eins og lík­legt væri að fjöll­in hefðu hækkað. Það var slá­andi að verða vitni að þessu. Annað sem kom mér í opna skjöldu var hversu stöðugt all­ir jökl­arn­ir hafa minnkað; veru­lega hef­ur dregið úr þeim. Tök­um Hofs­jök­ul sem dæmi, en hann er í 1.765 metra hár. Ætti ekki jök­ull­inn að bráðna hæg­ar þar uppi? Þar var alltént kald­ara að taka mynd­irn­ar.“

Fláajökull. 1999.
Fláa­jök­ull. 1999. Olaf­ur Eli­as­son Detail of The glacier series, 1999/​2019 Courtesy of the art­ist; neu­gerriemschnei­der, Berl­in; Tanya Bonak­dar Gallery, New York / Los Ang­eles © 2019 Olaf­ur Eli­as­son


Er ég nægi­lega ábyrg­ur?

– Hvað finnst þér um þetta?

„Nýtt skeið er aug­ljós­lega runnið upp í sam­skipt­um manns og lofts­lags. Hvað finnst mér um það? Til­finn­ing­ar mín­ar eru orðnar part­ur af til­finn­ing­um al­menn­ings. Ég er ekki frá því að ég hafi van­metið neyðina, þannig að ég velti eft­ir­far­andi spurn­ingu ít­rekað fyr­ir mér: Er ég nægi­lega ábyrg­ur? Senni­lega snýst þetta ekki leng­ur um hvað mér finnst. Það er tími til kom­inn að umorða spurn­ing­una „hvað finnst mér?“ og spyrja í staðinn: „Hvernig á ég að bregðast við?“ Eins og við öll vit­um þá skipta aðgerðir sköp­um en ekki til­finn­ing­ar. Að finn­ast eitt­hvað eða hugsa um eitt­hvað dug­ar ekki leng­ur. Það leiðir okk­ur að spurn­ing­unni: Hvers kon­ar aðgerðir duga? Að gera smá er gríðarlega mik­il­vægt, gæti vel verið þúfa sem velt­ir þungu hlassi. Í öll­um mín­um verk­um skoða ég fjar­lægðina milli þanka og gjörða og öll litlu skref­in þar á milli. Við lif­um á tím­um þar sem nauðsyn­legt er meta allt sem við ger­um út frá framtíðinni. Það er á svig við hug­ar­far minn­ar kyn­slóðar – við höf­um byggt all­ar okk­ar gjörðir á fortíðinni. Ég meina, við stönd­um á herðum fólks sem ruddi braut­ina og kom okk­ur hingað. Allt sem við vit­um, öll okk­ar mennt­un, bygg­ist á því sem ein­hver gerði í fortíðinni. Á sinn hátt er þetta íhalds­samt; ör­ugg og alls ekki áhættu­sæk­in leið til að þrosk­ast. Nema hvað nú hef­ur komið á dag­inn að fortíðin hafði á röngu að standa; fólki varð á í mess­unni. Raun­ar ít­rekað. Tök­um jarðefna­eldsneyti sem dæmi en það er um 175 ára gam­alt. Við höfðum hundruð millj­óna líf­efna á jörðinni og á sek­úndu­broti í jarðfræðilegu sam­hengi hef­ur okk­ur tek­ist að klúðra mál­um.“

Fláajökull. 2019.
Fláa­jök­ull. 2019. Olaf­ur Eli­as­son Detail of The glacier series, 1999/​2019 Courtesy of the art­ist; neu­gerriemschnei­der, Berl­in; Tanya Bonak­dar Gallery, New York / Los Ang­eles © 2019 Olaf­ur Eli­as­son

Í sum­ar var sýn­ing á verk­um Ólafs, In real life, opnuð í Tate Modern-galle­rí­inu í Lund­ún­um og upp­haf­lega ætlaði hann að vera bú­inn með serí­una fyr­ir þann tíma en nú verður henni bætt við sýn­ing­una í endaðan nóv­em­ber. Sýn­ing­in verður einnig sett upp í Hafn­ar­hús­inu í Reykja­vík um líkt leyti. „Ég gat ekki byrjað að mynda þegar ég ætlaði mér vegna þess að ég varð að bíða eft­ir því að snjór­inn bráðnaði svo ég gæti séð jökl­ana al­menni­lega. Mark­miðið var að gera al­veg eins seríu, þannig að ég varð að vera þol­in­móður.“ 

Nán­ar er rætt við Ólaf í norður­slóðablaðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert