Norðurslóðablað frestast

Norðurslóðablaðið sem átti að dreifa með Morgunblaðinu í dag verður ekki borið út  með blaðinu í dag, föstudag, eins og kynnt hafði verið, heldur verður það borið út á morgun, laugardag. Þetta er vegna bilunar sem kom upp í prentsmiðju Landsprents. 

Blaðið er 56 síður og fjallar um norðurslóðir. Yfirskrift þess er Björgum heiminum eða Save the World, en eins og undanfarin ár kemur blaðið bæði út á íslensku og ensku. Þar er vísað í ákall ungu kynslóðarinnar sem víða um heiminn hefur krafist markvissra aðgerða í loftslagsmálum. 

Rauði þráðurinn í blaðaukanum er sem fyrr ljósmyndir og sögur Ragnars Axelssonar, sem í tæp 40 ár hefur fylgst grannt með lífinu á norðurslóðum og orðið vitni að miklum breytingum, bæði á náttúru og mannlífi. 

„Þessar breytingar á norðurslóðum eru svo örar að það er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að skrásetja þær í máli og myndum fyrir allan heiminn að sjá og kynna sér. Blað eins og þetta er auðvitað bara dropi í hafið en því fleiri bækur sem verða til þeim mun betra. Þær fræða og opna augu fólks sem hefur litla sem enga tilfinningu fyrir þessu fjölbreytta og óvenjulega lífi á norðurslóðum sem getur verið erfitt og heillandi í senn,“ segir Ragnar.

Áskrifendur eru beðnir afsökunar á þessum töfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert