Opna hluta Seljaskóla aftur eftir brunann

Magnús Þór Jónsson skólastjóri Seljaskóla.
Magnús Þór Jónsson skólastjóri Seljaskóla. mbl.is/Hari

Talsvert hefur verið unnið að framkvæmdum í Seljaskóla undanfarið eftir að tveir eldsvoðar brutust út í skólabyggingunni á árinu. Fyrri eldsvoðinn var í mars þegar eldur kviknaði í þaki hússins og seinni bruninn var í maí þegar ein bygging, hús fjögur, gjöreyðilagðist eftir íkveikju. Endurbyggja þarf þá byggingu og standa þær framkvæmdir yfir fram á næsta ár.  

Í upphafi næstu viku verður opnað svæði sem skemmdist í fyrri brunanum. Það er gangur og anddyri, einn af sjö inngöngum í skólann. Einnig þurfti að laga það rými eftir vatns- og reykskemmdir eftir seinni brunann. „Í maí þegar við ætluðum að opna það rými varð seinni bruninn. Við þurftum eiginlega að byrja upp á nýtt þar með ákveðna verkþætti,“ segir Magnús Þór Jónsson skólastjóri Seljaskóla. 

Framkvæmdir við Seljaskóla.
Framkvæmdir við Seljaskóla. mbl.is/Hari

Þegar þetta svæði opnar verður flæðið um húsnæðið betra og yngstu börnin þurfa ekki að ganga lengri leið utanhúss til og frá að stofum sínum. „Við opnunina virkar húsið betur og við bíðum spennt eftir því,“ segir Magnús Þór. Við þetta opnast einnig lítil vinnurými fyrir nemendur. 

Laga líka ýmislegt annað samhliða vinnu við brunatjón

Verkinu við endurbyggingu álmunnar miðar vel en ljóst er að hún verður ekki opnuð fyrr en eitthvað verður liðið fram á næsta ár, segir Magnús. Í millitíðinni sækja rúm­lega 140 nem­end­ur í 6. og 7. bekk nám í hús­næði Fella­skóla en kennsla þessara árganga fór fram í umræddu húsi fjögur.  

Framkvæmdum lýkur ekki fyrr en á næsta ári í Seljaskóla …
Framkvæmdum lýkur ekki fyrr en á næsta ári í Seljaskóla en fram að því sækja nemendur kennslu í Fellaskóla. mbl.is/Hari

„Þetta gengur mjög vel og við erum mjög ánægð með þessa bráðabirgðalausn,” segir Magnús Þór um kennslu nemendanna í Fellaskóla. Eftir smávægilega hnökra í upphafi við þessar breytingar hefur starfið slípast til.

„Um leið og við vinnum að brunatjóninu er verið að lagfæra hluti sem komu í ljós að voru ekki í lagi í húsinu sem er 40 ára gamalt. Núna er unnið að því að laga drenlagnir í húsinu. Samhliða því er verið að hanna m.a. neyðarútganga, klósett og aðgengi fatlaðra í samræmi við nýjustu staðla, auk þess að skipuleggja vinnurýmin í kennslustofunum í samræmi við nýjustu kröfur og hugmyndafræði kennsluhúsnæðis,“ segir Magnús Þór.

Þessar framkvæmdir hafa tekið lengri tíma en upphaflega var reiknað með.  

Talsverð vinna er fram undan við að endurbyggja hús fjögur …
Talsverð vinna er fram undan við að endurbyggja hús fjögur þar sem altjón varð. mbl.is/Hari
Unnið er að framkvæmdum í Seljaskóla eftir bruna.
Unnið er að framkvæmdum í Seljaskóla eftir bruna. mbl.is/Hari
Samhliða viðgerðum eftir brunann er einnig verið að laga drenlagnir …
Samhliða viðgerðum eftir brunann er einnig verið að laga drenlagnir við Seljaskóla. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert