Landsat-8-gervitungl bandarísku landfræðistofnunarinnar USGS og geimvísindastofnunarinnar NASA átti leið yfir Snæfellsnes hinn 30. september og tók mynd í bjartviðrinu. Greinilegt er að Snæfellsjökull hefur talsvert hopað frá fyrri stærð.
Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í landfræði við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, teiknaði ofan á myndina jaðar jökulsins eins og hann var samkvæmt frumteikningu herforingjaráðskorts frá árinu 1910, fyrir 109 árum. Ingibjörg sagði að þótt herforingjaráðskortin væru afar vönduð og vel gerð væri ekki hægt að taka þau sem hárnákvæma mælingu á jöklinum þótt vissulega gæfu þau góða hugmynd um þróunina.
Neðri mörk þess svæðis þar sem snjór situr eftir að hausti eru nú á bilinu 1.100 til 1.400 m.y.s. á vestanverðu landinu. Snæfellsjökull er 1.446 metra hár og ef hlýnar um aðrar tvær gráður á þessari öld mun hann missa stóran hluta af ákomusvæði sínu.