Alvarlegt umferðarslys varð á sunnanverðu Snæfellsnesi á öðrum tímanum í dag, nánar tiltekið á Snæfellsvegi nærri bænum Gröf við Kleifá. Tvær þyrlur frá Landhelgisgæslunni hafa verið kallaðar út.
Einn bíll fór út af veginum og voru fimm manns í honum. Öll eru þau mikið slösuð, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.
Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar segir í samtali við mbl.is að TF-EIR sé komin á slysstað, en með í för eru tveir bráðatæknar frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. TF-GRO tók á loft frá Reykjavík um kl. 13:50 og stefndi á slysstað. Þar var mannskapur frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sömuleiðis með í för.
Fyrri þyrla Landhelgisgæslunnar lenti með þrjá sjúklinga á Landspítalanum í Fossvogi um laust fyrir kl. 14:40. Sú seinni lenti um kl. 14:50 með einn sjúkling.
Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Gæslunnar segir að hann geri ráð fyrir því að fimmti sjúklingurinn hafi verið fluttur til Reykjavíkur með sjúkrabíl.