„Ljóst að dómar endurspegla ekki raunveruleikann“

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir að Stígamót og konurnar voni …
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir að Stígamót og konurnar voni það besta en sú búnar undir það versta. mbl.is/​Hari

„Það hefur lengi verið vitað að íslenska réttarkerfið nær mjög illa utan um ofbeldismál. Dómahlutfall kærðra nauðgunarmála hefur verið um 11% sem er skárra en í mörgum löndum í kringum okkur en engan veginn ásættanlegt að okkar mati,“ segir Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta í samtali við mbl.is.

Stígamót hafa unnið að því að safna saman málum kvenna sem eiga það sameiginlegt að hafa verið felld niður án þess að fara fyrir dóm hér á landi með það að markmiði að kæra meðferð málanna til Mannréttindadómstóls Evrópu. Fyrsta kæran af þrettán mögulegum var undirrituð í gær og send til dómstólsins í Strassborg.

Skýlaus krafa að mál séu vel rannsökuð

„Þetta eru þrettán ofbeldismál gegn konum sem öll hafa verið felld niður og niðurfelling þeirra hefur verið kærð til ríkissaksóknara. Sum málin eru ennþá þar í meðferð og ef ríkissaksóknari staðfestir niðurfellinguna þá munum við fara áfram með málin til Mannréttindadómstóls Evrópu,“ útskýrir Guðrún.

Markmiðin með kærunum eru að Mannréttindadómstóllinn taki þær fyrir og að þær leiði á endanum til breytinga í íslensku dómskerfi. Spurð hvernig breytingar Stígamót vilji sjá á dómskerfinu svarar Guðrún:

„Það er engin einföld leið til þess en það er allavega hægt að gera þá skýlausu kröfu að mál séu vel rannsökuð. Það er ljóst að dómar endurspegla ekki raunveruleikann. Nú viljum við láta reyna á hvort Mannréttindadómstóll Evrópu skili konum réttlæti.“

Skrefi nær að færa konum réttlæti

Sönnunarfærsla fyrir dómi í nauðgunar- og ofbeldismálum er jafnan erfið enda fara slík brot jafnan fram bakvið lokaðar dyr heimilis og sjaldnast eru vitni að slíkum afbrotum.

„Sönnunarfærslan er alltaf erfið, það er alveg rétt, gjarnan orð á móti orði. En þá verður allt annað að vera 100%. Það hefur skort á að okkar mati,“ segir Guðrún.

Hún segist ekki vita hvort að Mannréttindadómstóllinn taki málin fyrir en þær voni það besta og séu búnar undir það versta. „Við vitum ekki hvort dómstóllinn tekur málin til meðferðar og hvernig niðurstaðan verður, taki hann þau til meðferðar, en okkur finnst sjálfsagt að láta reyna á það,“ segir Guðrún og bætir við:

„Við höfum þá allavega gert það sem við getum og komist skrefi lengra í að færa konum réttlæti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert