23 urðunarstöðvar eru í dag starfræktar á Íslandi. Umhverfisstofnun, sem hefur gefið út starfsleyfi fyrir og hefur eftirlit með stöðvunum, hefur einnig gefið út fyrirmæli um frágang og vöktun 15 aflagðra urðunarstaða og sambærileg fyrirmæli eru í vinnslu fyrir þrjá slíka staði til viðbótar.
Stærst núverandi urðunarstöðva er Sorpa í Álfsnesi, sem hefur heimild til að urða allt að 120.000 tonn á ári. Norðurá í Stekkjarvík, sem er samstarfsverkefni sex sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði hefur heimild til urðunar á allt að 21.000 tonn árlega og Sorpurðun Vesturlands í Fíflholti á Mýrum hefur heimild til urðunar á allt að 15.000 tonn árlega.
Báðar síðarnefndu stöðvarnar hafa farið fram á heimild til stækkunar – Sorphirða Vesturlands vill fá leyfi til að urða allt að 25.000 tonn og Norðurá í Stekkjarvík 30.000 tonn, en þess má geta að Stekkjarvík sem átti upphaflega að taka við úrgangi frá sex sveitarfélögum í Skagafirði og Austur- Húnavatnssýslu tekur nú við úrgangi frá öllum sveitarfélögum á Norðurlandi og hluta þess úrgangs sem fer til urðunar af Suðurlandi. Tuttugu urðunarstaðir til viðbótar hafa svo heimild til að taka á móti og urða minna en 10.000 tonn og þar af hafa 14 þeirra heimild til að urða undir 1.000 tonnum á ári.
Fullnýting urðunarstöðvanna samsvarar urðun á 230.000 tonnum af rusli árlega og virðast Íslendingar fara nærri því að fullnýta þann kvóta. Fram kom í viðtali sem mbl.is átti við Jón Þóri Frantzson, forstjóra Íslenska gámafélagsins í síðasta mánuði að árlega séu urðuð um 220 þúsund tonn af sorpi hér á landi sem jafngildir því að grafa 20 Effel-turna af rusli ofan í jörðu.
Sagði Jón Þórir í viðtalinu útflutning á sorpi til brennslu vera „skárri en versti kosturinn sem sé að urða“ og benti á að umhverfisávinningurinn sem fáist með því að flytja sorp til brennslu í orkuveri í Evrópu jafngildi því að nærri 107 þúsund bílar hverfi af götunum. Á næsta ári flytur Íslenska gámafélagið í samstarfi við Samskip 30 þúsund tonn af sorpi til Rotterdam í Hollandi til orkunýtingar, en gerður hefur verið samningur til þriggja ára.
Umhverfisstofnun virðist sömu skoðunar og segir að ef horft sé til úrgangsþríhyrningsins sé heppilegra að brenna sorp með orkunýtingu frekar en að urða það. „Urðun á alltaf að vera seinasti kostur,“ segir í svörum stofnunarinnar.
Magnús B. Jónsson, formaður stjórnar Norðurár bs sem rekur Stekkjarvík, sem er önnur stærsta urðunarstöð landsins, er þessu ekki sammála. „Það dugar ekkert bara að hætta að urða. Það er neyslan sem er stærsta vandamálið,“ segir Magnús í samtali við mbl.is.
Magnús og kollegi hans, Kristinn Jónasson, formaður stjórnar Sorpurðunar Vesturlands sem rekur urðunarstöðina í Fíflholti á Mýrum, vörpuðu í síðasta mánuði fram áleitnum spurningum um sorphirðu í grein sem birt var í Skessuhorninu þar sem þeir gagnrýndu að flutningur á sorpi úr landi með tilheyrandi kolefnisspori geti talist lausn á sorpmálum landans. Ekki dugi að fullyrða að ein lausn á sorpeyðingu sé ónothæf og setja fram aðra óreynda lausn, heldur beri frekar að líta á allt efni sem auðlindir sem nauðsynlegt sé að nýta sem best.
„Fyrsta staðreyndin sem blasir við er að undanfarin ár hefur fallið til sífellt meira sorp frá almenningi og fyrirtækjum á Íslandi og við þurfum að finna leiðir til að koma því fyrir á einhvern hátt,“ sögðu þeir í grein sinni.
Tölfræði Umhverfisstofnunar staðfestir þær fullyrðingar, en árið 2017 var magn heimilisúrgangs á hvern íbúa landsins orðið meira en 2008, sem hafði verið metár fram að því. Það ár var heildarmagn úrgangs sem féll til á Íslandi rúm 1.400 þúsund tonn og af því nam magn heimilisúrgangs rúmum 225 þúsund tonnum. Ekki nema 33% heimilisúrgangsins rötuðu í endurvinnslu og benda þau 67% sem enduðu í urðun til þess að vissulega megi gera betur í þessum efnum.
Mbl.is lék forvitni á að vita hvernig endurvinnslumálum væri háttað á landinu öllu og sendi fyrirspurn um urðun og endurvinnslu á öll 72 sveitarfélög landsins. Mikill meirihluti brást vel við fyrirspurninni. 60 sveitarfélög svöruðu og er sorp þegar flokkað með einhverjum hætti í 59 þeirra.
Svör sveitarfélaga, sorpvinnslustöðva og sorphirðufyrirtækjum benda þó til að sveitarfélög séu mislangt komin í þessum efnum.
Kalka, sem er sorpeyðingarstöð í eigu sveitarfélaga á Suðurnesjum tók á móti 18.332 tonnum af sorpi í fyrra og fóru 11.479 tonn í brennslu. Þess má geta að sú brennsla felur ekki í sér orkunýtingu, heldur flokkast sem förgun. 4.493 tonn til viðbótar fóru í urðun og 2.360 tonn í endurvinnslu. Í svörum frá Jóni Norðfjörð fráfarandi framkvæmdastjóra Kölku kemur fram að hlutfall endurvinnslu muni aukast á þessu ári vegna flokkunar úrgangs við heimili, sem hófst á Suðurnesjum um mitt ár 2018.
Spurður hvort íbúar á Reykjanesi séu duglegir að nýta endurvinnslutunnurnar segir Jón endurvinnsluefni hafa verið um 20% af því heildarmagni úrgangs sem barst frá heimilum fyrstu sex mánuði þessa árs. „Þetta er eitthvað mismunandi eftir sveitarfélögum en útkoman var best í Grindavík, um 25%,“ segir hann.
Hjá Gámaþjónustu Vestfjarða fór 70% úrgangs í urðun árið 2017, 24% í endurvinnslu og 6% til eyðingar, en samkvæmt rekstrarstjóranum Gunnari Árnasyni fóru 3.274.686 tonn í gegnum Gámaþjónustuna það ár.
Af þeim 263.064 tonnum úrgangs sem Sorpa tók við í fyrra fóru 50,5% í endurvinnslu og endurnýtingu, en með endurnýtingu er átt við þann úrgang sem til að mynda fer í landmótun. Er hluti úrgangsins þannig nýttur í Álfsnesi sem yfirlag á urðunarstaðnum, t.d. jarðvegur og litaðar timburflísar, dekkjakurl er nýtt í drenlag og steinefni sem fyllingarefni. Á urðunarstað Sorpu í Álfsnesi bárust þá yfir 100.000 tonn af blönduðum úrgangi.
Íslenska gámafélagið meðhöndlar um 165.000 tonn á ári og fram til þessa hafa 52% farið til endurvinnslu, 47% til urðunar og 1% til eyðingar í brennslu án orkunýtingar hérlendis. Birgir Kristjánsson, framkvæmdastjóri umhverfissviðs Íslenska gámafélagsins, segir íbúa þeirra 24 sveitarfélaga sem fyrirtækið þjónustar líka vera mjög duglega að nýta tunnur undir endurvinnsluhráefnin. Ekki sé óalgengt að endurvinnsluhlutfall heimila á landsbyggðinni sé á bilinu 50-55% og hafi það hæst náð 68% í Stykkishólmi er fríblöðin voru fleiri en þau eru í dag.
Á bilinu 8.000-10.000 tonn af úrgangi hafa undanfarin ár farið í gegnum Sorpstöð Suðurlands árlega, en byggðasamlagið annast förgun sorps fyrir sveitarfélög í Rangárvalla- og Árnessýslu. Að sögn Stefáns Gíslasonar stofnanda Environice sem unnið hefur með Sorpstöðinni, fóru rúm 50% úrgangs sem komu í gegnum Sorpstöðina til júlíloka á þessu ári í urðun og tæp 50% í endurvinnslu og endurnýtingu. Um 6% af heildarmagni sorps var sérsafnað sem lífrænn úrgangur og telur Stefán að hægt ætti að vera að ná hlutfalli því upp í 10%.
Hjá Terra, sem áður hét Gámaþjónustan og þjónustar tæplega 30 sveitarfélög, er endurvinnsluhlutfall af heildarmagni á höfuðborgarsvæðinu um 55%. „Hlutfall endurvinnslu er vaxandi og þar með minnkar það sem þarf að fara í urðun eða í aðra förgunarleið. Það er ekki mikill munur á milli landshluta en það er aðeins mismunandi hvaða efni eru í sérsöfnun hjá sveitarfélögunum,“ segir Líf Lárusdóttir markaðsstjóri Terra. Hún segir öll sveitarfélög sem eru með þjónustusamning við Terra þó hafa tekið góð skref til meiri flokkunar.
Úrgangurinn sem urðaður er þarf þá oft að ferðast langar leiðir. Enginn urðunarstöð er til að mynda á Suðurlandi og eftir að samningur Sorpstöðvarinnar við Sorpu rann út um síðustu áramót hefur sorpið ýmist verið flutt í urðunarstöðina í Fíflholt í Mýrum, eða tæplega 300 km leið í Stekkjarvík í landi Sölvabakka norðan við Blönduós. Sá mikli akstur og kostnaður honum samfara hefur aukið flokkun í sveitarfélögunum, sem nú flokka einnig lífrænan úrgang.
Úr Vestmannaeyjum er siglt með sorpið upp á land og þaðan ekið með það í Álfsnesið til urðunar. Þar er þó unnið að því að setja upp sorpbrennslu, en ferlið er langt að því er segir í svörum frá bænum.
Lengst er þó væntanlega vegalengdin sem ekin er með sorp til urðunar á Vestfjörðum, en að sögn Gunnars Árnasonar rekstrarstjóra Gámaþjónustu Vestfjarða er farið með sorp þaðan til urðunar í Fíflholt á Mýrum og er vegalengdin sem ekin er um 404 km hvor leið.
Vegalengdirnar geta líka verið langar óháð því hvort sorp fer í urðun eða endurvinnslu og má nefna sem dæmi að í Húnavatnshreppi ekur sorpbíllinn um 424 km leið er hann sækir sorp á bæi í sveitarfélaginu.
Húsasorpsrannsókn Sorpu þar sem sýni eru tekin úr sorphirðubíl og pressugámi sýnir að gera má betur, en pappi og pappír er að meðaltali 10,2% innihaldsins og plast 16,2%. Þessar tölur eru engu að síður á niðurleið, þar sem þær voru 11% fyrir pappírinn og 18% fyrir plastið í könnuninni þar á undan. Sorpa segir líka að þó magn úrgangs hafi haldið áfram að aukast á árinu þá stefnir endurnýtingarhlutfallið í rétta átt. Það hækkaði milli ára og var 50,5% árið 2018 en var 47,2% árið 2017.
Um 32.000 tonn af steinefnum skiluðu sér í endurnýtingu hjá Sorpu í fyrra og var það 39% aukning frá árinu á undan. Af timbri komu rúmlega 21. tonn til endurnýtingar, 8.600 tonn af garðaúrgangi, 1.900 tonn af plasti. Um 2.000 tonn af raftækjum skiluðu sér þá á endurvinnslustöðvar og af pappír og pappa komu 11.100 tonn inn til endurvinnslu. Magn seldra nytjahluta í Góða hirðinum til endurnotkunar dróst hins vegar saman um tæp 5% það árið.
Hjá Íslenska gámafélaginu er hlutfallsskipting þess úrgangs sem fer í endurvinnslu og endurnýtingu 18% málmar, 17% pappír, 54% lífrænn úrgangur að timbri með töldu, 3% raftæki, 3% plast og annað 7%. Þegar horft er til heildarþyngdar þess úrgangs sem fer í endurvinnslu hjá Terra er hlutfallið 65% pappi og pappír, málmar 32% og plast 3%.
„Ríflega helmingur þess magns sem fer til endurvinnslu er endurunnin innanlands,“ segir Birgir og kveður lífrænan úrgang og timburkurl fara til jarðgerðar, auk þess sem stór hluti timbursins sé endurnýttur hjá kísilveri Elkem á Grundartanga. „Aðrir flokkar fara til endurvinnslu erlendis.“
„Magn endurvinnsluefna sem berst til okkar um land allt eykst á hverju ári,“ segir Líf. „Við finnum fyrir því að heimilin eru sífellt að verða meðvitaðri um flokkun og endurvinnslu. Þetta kemur m.a. fram í fjölgun spurninga frá almenningi og kröfum einstaklinga um þjónustu á borð við flokkun á upprunastað. Stór hluti af því sem fellur til heima fyrir eru efni sem eiga framhaldslíf ef þau berast á réttan stað.“
Hún segir Terra leggja stöðugt meiri áherslu á flokkun úrgangs og endurvinnsluefna og markmiðið sé að nýta sem mest og urða sem minnst.
„Allur bylgjupappi, pappír og málmar sem við söfnum fer í endurvinnslu. Pappi og pappír er sendur úr landi til endurvinnslu. Málmar fara til endurvinnslufyrirtækja hér á landi og hluti af því plasti sem berst til okkar fer í endurvinnslu hjá íslenska fyrirtækinu Pure North sem staðsett er í Hveragerði.“ Plastið sem þangað fer er að mestum hluta landbúnaðarplast, en fyrirtækið hefur þó uppi áform um frekari stækkun sem myndi auka endurvinnslu á plasti hérlendis.
Allt filmuplast sem berst til Terra, bæði ólitað og litað er baggað og sent utan til endurvinnslu. „Við sendum plastfilmuna til Hollands þar sem frekari flokkun fer fram og er síðan endurunnið aftur í plastefni,“ útskýrir Líf.
„Síðan eru margir flokkar af öðru umbúðaplasti, t.d. plastpokum, smærri plastfilmu, plastbökkum, samsettri plastfilmu eins og í áleggsbréfum, skyrdósum, stórum og litlum plastflöskum og brúsum, sem við tökum saman í einn flokk. Þetta plast er núna sent til Þýskalands þar sem það fer í nánari flokkun. Meirihluti af plastinu er endurunnið, en hluti þess er ekki nothæft til endurvinnslu, t.d. vegna óhreininda eða samsetningu umbúða. Það plast, sem ekki er hæft til endurvinnslu fer til orkuvinnslu.“ Segir hún það efni þannig nýtast til að búa til hita í stað annarra orkugjafa.
Lífræni úrgangurinn fer svo til jarðgerðar hjá Moltu í Eykjafirði og í Moltugerð Terra í Hafnarfirði.
„Hluti af því timbri sem berst til okkar, eins og t.d vörubretti, kurlum við niður og útbúum timburkurl sem hefur verið vinsælt í runna- og blómabeð í görðum, í stíga á útivistarsvæðum og sem undirburður í gripahúsum. Eins fer stór hluti af okkar timbri til járnblendisframleiðslu á Grundartanga þar sem það er notað sem stoðefni,“ segir Líf.
Engin endurvinnsla á gleri sér stað hér á landi og enda allar glerflöskur sem skilað er í endurvinnslu sem fylling á urðunarstöðum. Endurnýtingin á gleri er því nokkuð góð, eða 70% árið 2017 þó endurnýtingin sé enginn, en með endurnýtingu er átt við að úrgangur sé nýttur þannig að hann verði til gagns og sé notaður í stað efniviðar sem annars hefði verið notaður.
Kúrfurnar fyrir endurnýtingu og endurvinnslu á pappír og pappa fylgjast hins vegar vel að og mældust 84% árið 2017, en þær hafa verið á nokkuð stöðugri uppleið frá 2008. Kúrfan fyrir endurnýtingu og endurvinnslu málma er fullkomlega samhliða og var hlutfallið 64% árið 2017, en hæst fór kúrfan 2014 er hún var 79%. Endurnýting viðar var 69% árið 2017 eftir að hafa verið 88,6% árið 2008. Miklar sveiflur virðast þó vera í endurnýtingu á þessum flokki. Öllu meiri niðursveifla virðist þó vera í endurvinnslunni og hrapaði hlutfallið árið 2017 niður í sögulega lægð þegar ekki nema 23% viðarins voru endurunnin.
Plastið virðist þó vera sá flokkur þar sem endurvinnsluhlutfallið er að staðaldri hvað lægst. Þannig fór endurvinnsla plasts hæst í 43% árið 2016, en hrapaði svo niður í 30% árið eftir og hefur raunar sjaldan frá aldamótum farið yfir 40%. Endurnýtingarhlutfall plasts fór hæst árið 2011 í 58,8% en hefur eftir það verið á niðurleið og er nú 31%.
Í frétt sem birt var á síðu Sorpu í janúar á þessu ári segir að mikil umræða um áhrif plasts á umhverfið virðist þó vera að skila betri vitund og jókst flokkun plasts hjá notendum Sorpu þannig um 38% milli áranna 2017 og 2018.
„Ég held að ástæðan fyrir þessu sé að hluta til sú að sumstaðar höfum við verið að flokka pappírinn og pappann frá í lengri tíma,“ segir Guðmundur Ingi. „Að hluta til er hún þó kannski líka hvers konar plast er hægt að flokka og endurvinna. Þetta er þó ekki nánda nærri nógu hátt hlutfall af plasti sem er verið að endurvinna.“ Mikil vitundarvakning hefur átt sér stað varðandi skaðsemi þeirra plastefna sem enda í náttúrunni. Guðmundur Ingi segir plastið þó vera gott til síns brúks. „Það kemur m.a. í veg fyrir matarsóun sem er mjög mikilvægt, en einnota plast og óþarfa plast er eitthvað sem við þurfum að draga úr að endi úti í náttúrunni.“ Lagafrumvarp sem nú sé í vinnslu og kveður á um bann við ýmsum gerðum af algengu einnota plasti eins og plastglösum, plaströrum, hnífapörum og ílátum úr frauðplasti muni vonandi reynast lóð á þær vogaskálar.
„Maður vonast líka til þess að með svona stjórnvaldsaðgerðum sé hægt að ýta hugsunarhætti fyrirtækja í þá átt að við þurfum að finna umhverfisvænni umbúðir t.d. utan um matvörur og aðrar vörur. Það þarf að hugsa um endurnýtanleika umbúða og það hvernig hlutir eru hannaðir.“
Í grein þeirra Magnúsar hjá Norðurá og Kristins stjórnarformanns Sorpurðunar Vesturland í Skessuhorninu segja þeir að leggja ætti þá kröfu á stjórnvöld að lögð verði hærri innflutningsgjöld á óendurvinnanlega vöruflokka og banna lagt alfarið við innflutningi á óendurvinnanlegum umbúðum og hvetja þau fyrirtæki sem eru í innflutningi til landsins að finna leiðir til að minnka umbúðamagnið sem kemur með vörunum að utan. „Þannig minnkar strax verkefnið sem við þurfum að leysa,“ skrifa þeir.
Krafan um umbúðalausar vörur virðist líka verða sífellt sterkari hjá neytendum, en í sumar höfðu Krónunni borist hátt í 200 ábendingar um hvað betur megi fara í umhverfismálum verslunarkeðjunnar og óskaði mikill meirihluti eftir umbúðalausum vörum eða 29% og er það verkefni sem Krónan vinnur stöðugt að.
Norðlenska er eitt þeirra fyrirtækja sem hefur unnið með Krónunni að bættri umbúðamenningu. „Við erum markvisst að reyna að draga úr magni þeirra umbúða sem neytandinn þarf að losa sig við. Við reynum að hafa jafn lítið plast í þeim og hægt er og að hafa þær auðflokkanlegar,“ segir Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska.
„Við vorum í eitt og hálft ár ein á markaði með pappabakka fyrir ferskvöru og með því drógum við úr plastnotkun við hakk og hamborgaraframleiðslu um 83%. Við erum svo núna ein á markaði í dag með áleggsvörur á pappaspjaldi í stað plastspjalds og það dregur úr plastnotkun við sölu og neyslu áleggsvara um 60-70%. Ég vildi geta sagt þér að við værum búin að eyða plasti alveg í einhverjum vörum, en við erum ekki komin þangað,“ bætir Ágúst Torfi við og segir þau hjá Norðlenska reyna að fylgjast vel með umbúðaþróun erlendis. „En það er enginn í dag komin með umbúðir sem nota ekki plast. Þetta eru lítil skref til að minnka plastið en við erum klárlega að taka þau.“
Hann segir fyrirtækið líka vinna markvisst að því að draga úr öllum úrgangi sem til fellur. Auk þess að reyna að draga úr plastnotkun í neytendaumbúðum, moltar Norðlenska allan þann lífræna úrgang sem kostur er á og reynir líka markvisst að reyna að höndla með vörur innan fyrirtækisins þannig að plast sé notað í eins miklu hófi og hægt er, það plast endi svo að sjálfsögðu fyrir rest í endurvinnslugámi.
Ágúst Torfi segir þau hjá Norðlenska taka þessi málalvarlega og sín tilfinning sé sú að fólk vilji frekar vinna hjá fyrirtæki sem það geri. „Auðvitað er þetta líka bissness og við getum ekki hagað okkur eins og hálfvitar. Við erum að selja vöru á neytendamarkaði og viðskiptavinurinn hefur mjög vaxandi þekkingu og áhuga á hvernig fyrirtækin sem hann er að versla við haga sér í þessum málum og við fögnum bara þeirri vitundarvakningu og erum með.“
Hann játar því líka að finna fyrir því að umhverfisvitund fyrirtækisins hafi áhrif á neytendur. „Krónan er okkar stærsti viðskiptavinur. Þeir voru að fá umhverfisverðlaun Samtaka atvinnulífsins og okkur finnst við alveg eiga smá hluta í því.“