„Hvaða aumingi ertu?“

„Þegar fólk er með athyglisbrest vantar orkuna og skipulagið; það …
„Þegar fólk er með athyglisbrest vantar orkuna og skipulagið; það vantar heildarsýnina. Það ákveður kannski að fara að taka til en hugsar: „Guð, það er allt í einni bendu!“ segir Anna Dóra Steinþórsdóttir sálfræðingur um frestunaráráttu. Colourbox

Steinunn Edda Steingrímsdóttir tengir frestunaráráttu við kvíða sem hún segir hafa fylgt sér í gegnum lífið. Kvíðinn magnaðist þegar hún fékk áfallastreituröskun eftir erfiða fæðingu.

Ég á rosalega auðvelt með að „beila“ á eiginlega öllu sem ég plana. Ég fæ oftast þá tilfinningu að ég þurfi að hætta við. Ef ég er ekki hundrað prósent í geggjuðu skapi, vel út sofin og lít vel út þá sleppi ég að mæta,“ segir hún og segir það ekki skipta málið hvort viðburðurinn er skemmtilegur eða leiðinlegur.

Steinunn Edda frestar oftar en ekki að hitta vini og …
Steinunn Edda frestar oftar en ekki að hitta vini og kunningja. Hún er að vinna í kvíðanum hjá sálfræðingi og hjá EMDR-stofunni en hún fékk áfallastreituröskun eftir erfiða fæðingu. mbl.is/Ásdís

„Ég hætti oft við þó ég sé búin að segjast ætla að koma. Ég er þannig kvíðatýpa að ég get ekki einu sinni hringt og afboðað mig heldur sendi frekar skilaboð svo ég þurfi ekki að eiga bein samskipti. Svo fæ ég móral yfir því að afboða,“ segir Steinunn Edda.

Finnst þér frestunaráráttan tengjast kvíða?

„Já, hundrað prósent. Ég hef alltaf verið kvíðin og það hefur ágerst. Ég mikla allt fyrir mér. Þá finnst mér allt svo yfirþyrmandi. Það er betra að gera hluti án þess að plana því þá hef ég ekki tíma til að hugsa út í þá,“ segir hún og segist hafa sagt nánum vinum og fjölskyldu frá kvíðanum og frestunaráráttunni sem fylgir honum.

Einnig frestar hún því að svara póstum eða til að mynda að gera skattskýrsluna. „Ég hef lent í vandræðum. Þetta getur haft alvarlegar afleiðingar.“

Áfallastreituröskun eftir fæðingu

Steinunn Edda gekk í gegnum afar erfiða fæðingu og eftirköst sem enduðu á að hún var hætt komin. Lífi hennar var bjargað á síðustu stundu en það skildi eftir sig ör á bæði líkama og sál.

„Ég er búin að vera að fara til sálfræðings reglulega eftir að ég átti strákinn en ég fékk áfallastreituröskun eftir fæðinguna. Ég fór til að vinna úr því en svo áttaði ég mig á því að þetta væri stærra vandamál og tengdist ekki bara áfallastreituröskun,“ segir hún. „Þannig að nú er ég að vinna almennt í kvíðanum og við reynum að skilgreina hvaðan hann kemur. Ég fer líka í EMDR-stofuna en þar er boðið upp á öðruvísi nálgun. Þetta er hálfgerð dáleiðsla og ég finn að þetta virkar fyrir mig.“

Líklega með athyglisbrest

Ása Valgerður Gunnsteinsdóttir hefur verið með frestunaráráttu frá því hún man eftir sér. Hún er núna fyrst, 52 ára gömul, að gera sér grein fyrir að hún sé að öllum líkindum með athyglisbrest.

 Frá því að ég man eftir mér, alla vega frá unglingsárunum, hef ég verið með frestunaráráttu. Í menntaskóla gat ég aldrei komið mér að verki fyrr en á síðustu ögurstundu. Ég fékk ítrekað frest til að skila ritgerðum og verkefnum, nánast undantekningarlaust. Eða ég skilaði ekki neinu,“ segir Ása.

Ása Valgerður telur að hún sé með athyglisbrest og er …
Ása Valgerður telur að hún sé með athyglisbrest og er í ferli að fá greiningu. mbl.is/Ásdís

Þetta var ekki bara á einu tímabili, heldur hefur þetta fylgt mér í gegnum lífið. Og í raun hélt ég lengi vel að svona væru allir en ég áttaði mig á því þegar ég varð eldri að fólk bara skilar sínum verkefnum á réttum tíma. Fólk lærir fyrir próf vel fyrir prófdag og skilar ritgerðum jafnvel fyrir settan dag.“

Hvernig hefur þetta haft áhrif á þitt daglega líf í gegnum árin?

„Auðvitað hef ég frestað fullt af leiðinlegum verkefnum. Alls konar tiltektir og að panta tíma hjá tannlæknum og læknum. Ég hef frestað að fá iðnaðarmenn til að koma og laga hluti heima hjá mér. Að panta tíma í alls konar fyrir börnin mín. Ég fresta þessu öllu. Stundum get ég ekki hringt og pantað neitt og það líða dagar og vikur. Ég hreinlega get ekki tekið upp símtólið og ég veit ekki af hverju. Ég veit að þetta hljómar undarlega en svona er þetta stundum,“ segir hún.

Sannarlega ekki leti

Hvað myndir þú segja ef einhver segði að þetta væri bara leti?

„Ég myndi segja það að já, auðvitað hélt ég það sjálf og fékk skilaboð um að þetta væri leti. En þetta er svo sannarlega ekki leti því ég er ekki löt að öðru leyti. En jú, vissulega hefur sjálfstraustið beðið hnekki því ég hef hugsað: „Hvaða aumingi ertu? Af hverju ertu ekki löngu byrjuð á þessu?“ Ég hugsa alveg þannig ennþá.“

Hefur þú hugsað þér að leita þér hjálpar við þessu?

„Já, ekki spurning, ég ætla að gera það. Ég er þegar búin að skrá mig hjá ADHD-samtökunum á fjögurra kvölda námskeið til að vinna með skipulag. Skipulagsleysi er einmitt einn partur af frestunaráráttunni. Þó ég sé ekki komin með ADD-greininguna er ég klárlega með frestunaráráttu.“

 „Lyf eiga ekki að vera fyrsta ráðið“

Geðlæknirinn Högni Óskarsson segir mikilvægt að greina vandann sem liggur að baki frestunaráráttunni. Hann segist fyrst velja samtalsmeðferð en stundum þurfi einnig lyf til að ná tökum á vandanum.

Högni Óskarsson geðlæknir segir fólk oft þurfa langar meðferðir til …
Högni Óskarsson geðlæknir segir fólk oft þurfa langar meðferðir til að ná tökum á vandanum. mbl.is/Ásdís

Frestunaráráttan er kvíðatengd; oft hluti af áráttu- og þráhyggjuröskun og fylgir mjög gjarnan ADHD. Það er vegna þess að fólk sem er með athyglisbrest og þarf að standa sig hefur lært það að treysta ekki á sig. Þá kemur upp kvíði sem veldur frestunaráráttu. Langflestir sem eru með ADHD eru líka með kvíðaröskun þannig að það hangir oft saman. Kvíðinn tengist líka félagsfælni á þann hátt að fólk óttast að standa sig ekki, að það verði sér til minnkunar. Þá finnst fólki betra að bíða aðeins og gera hlutina betur,“ segir Högni Óskarsson geðlæknir.

Það eru engin kraftaverk

Margir skjólstæðingar Högna eru með frestunaráráttu sem er þá hluti af öðrum vanda. „Það er mikilvægt að greina vandann; hvernig kvíðinn hefur myndast. Ég ver þá tíma með fólki og fer í gegnum sögu þess og skoða hvernig kvíðinn hefur þróast. Svo þegar ég stend frammi fyrir því að velja meðferð, vel ég alltaf samtalsmeðferð. Það getur verið atferlismótandi meðferð. Svo eru ýmsar aðrar leiðir færar, eins og að nota ákveðið form af dáleiðslu. Svo hjálpar stundum slökunartækni til að mæta kvíðanum og er hún hluti af samtalsmeðferðinni. Stundum þarf að nota lyf líka, en þau eiga ekki að vera fyrsta ráðið,“ segir Högni sem segir frestunaráráttu geta verið mjög hamlandi.

„Ef nota þarf lyf þarf að finna réttu lyfin. Þunglyndislyf eru oft notuð til að vinna á kvíða en kvíðanum fylgir líka oft vægt þunglyndi. Það eru ákveðin þunglyndislyf sem virka ágætlega á áráttu- og þráhyggjuröskun og birtingarmyndir hennar, eins og frestunaráráttuna,“ segir Högni og segir oft þurfa töluvert langar meðferðir hjá fólki sem þjáist af kvíða og fylgifiskum hans. „Stundum eru líka notuð kvíðalyf. Það gæti tekið tíma að stilla lyfjaskammtinn rétt en margir tala um að það birti til í lífinu við lyfin. En það gildir ekki um alla. Það eru engin kraftaverk.“

 „Þetta er vítahringur“

„Frestunarárátta er ekki sérgreining heldur afleiðing af einhverju öðru og ýmsar ástæður geta legið að baki. Sumir eru með ADHD og aðrir með kvíða og er frestunaráráttan fylgifiskur þessara tveggja greininga,“ segir Anna Dóra Steinþórsdóttir sálfræðingur og bendir á að undir greiningunni ADHD sé bæði ofvirkni og athyglisbrestur.

Anna Dóra segir þá sem fresta hlutum sýna forðunarhegðun. „Þá erum við ekki að takast á við það sem veldur okkur áhyggjum eða kvíða. Það veldur svo meiri kvíða, þannig að þetta er vítahringur. Fólk fær sektarkennd þegar það klárar ekki verkefnin, sem bæði ýtir undir kvíða og óöryggið sem elur svo aftur á frestunaráráttu,“ segir hún.

Anna Dóra fær til sín marga skjólstæðinga sem haldnir eru …
Anna Dóra fær til sín marga skjólstæðinga sem haldnir eru mikilli frestunaráráttu. mbl.is/Ásdís

„Þegar fólk er með athyglisbrest vantar orkuna og skipulagið; það vantar heildarsýnina. Það ákveður kannski að fara að taka til en hugsar: „Guð, það er allt í einni bendu!“ Það vantar skipulagshæfnina, að einblína á einn hlut í einu og byrja einhvers staðar. Þeir sem eru með athyglisbrest eiga svo erfitt með að smætta niður hlutina og verkefnið verður þeim ofviða og þeir fresta því út í hið óendanlega. Orkan sem fer í að reyna að skipuleggja verkið er oft það mikil að fólk leggur svo ekki í það,“ segir hún. 

„Frestunarárátta kemur þegar eitthvað vekur ekki áhuga; það er ekki spennandi. Þú frestar erfiðum verkefnum. Þér finnst þú ekki ráða við þau eða hafir jafnvel áður gert mistök. Þá er erfitt að framkvæma, því ef þér mistekst eða gerir verk ekki nógu vel er það staðfesting á því að þú sért ómögulegur og skapar það slaka sjálfsmynd. Það gæti þá tengst fullkomnunaráráttu,“ segir hún og útskýrir að hjá því fólki geti verið erfitt að klára hlutina því þeir þurfi að vera svo fullkomnir. Frekar en að taka áhættuna á því að geta ekki gert hlutinn fullkomlega sé honum frestað svo álit annarra á viðkomandi minnki ekki.

Að horfast í augu við vandann

„Frestunarárátta getur haft verulega slæmar afleiðingar fyrir marga,“ segir Anna Dóra og nefnir að fyrir utan að verða af tækifærum í lífinu eða bregðast öðru fólki bregðist fólk sjálfu sér. „Það er svo slæmt. Þá verður sjálfsmyndin þannig að maður telur sér trú um að maður geti ekki hlutina og upplifir mikla vanhæfni. Fólk býr til þá mynd af sér að það sé ekki hægt að treysta á það. Út frá þessu getur þróast þunglyndi. Ef grunnurinn er athyglisbrestur eða kvíði, eða hvort tveggja, þá eykst kvíðinn og getur orðið óbærilegur,“ segir hún.

„Það sem fólk þarf að gera er fyrst að horfast í augu við vandann,“ segir hún og segist hún byrja á því að reyna að finna grunninn þegar fólk leitar til hennar með þessi vandamál.

„Ef það er kvíði vinnur maður með honum og þar með með afleiðingum. ADHD fylgir skipulagsleysi og frestunarárátta og þá kenni ég fólki að smætta niður verkin,“ segir hún.

Frestunarárátta getur haft alvarlegar afleiðingar.
Frestunarárátta getur haft alvarlegar afleiðingar. mbl.is/Ásdís

 Að leita sér hjálpar

Anna Dóra segist fá til sín marga skjólstæðinga sem haldnir séu frestunaráráttu og segir hún þá flesta vera með athyglisbrest.

„Við frestum öll einhverju leiðinlegu en þegar það er orðið að áráttu og farið að stuðla að vandamálum ætti fólk að leita sér hjálpar. Fólk þarf að þora að horfast í augu við sjálft sig. Það þarf að finna út hvort það er kvíðatengt, fullkomnunarárátta eða ADHD. Það er alltaf eitthvað meira en bara frestunarárátta. Fólk þarf að skoða hegðun sína og ef það getur ekki breytt henni sjálft á það að leita sér hjálpar,“ segir Anna Dóra og nefnir að margir fái lyf við ADHD sem virki oft vel og vandamálin leysist frekar.

Greinin í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert