„Þetta hús mun standa næstu kynslóðir,“ segir Mábil Másdóttir hótelstjóri á Hótel Geysi um nýju hótelbygginguna sem var tekin í notkun fyrir skömmu. Reksturinn við Geysi hefur verið í sömu fjölskyldu í þrjár kynslóðir og við byggingu nýs hótels var hugsað til framtíðar.
Í myndskeiðinu er rætt við Mábil og Elínu Svöfu Thoroddsen, markaðsstjóra og mágkonu Mábilar. Þá er nýja hótelið skoðað en það er ótvírætt í hópi þeirra glæsilegustu á landinu. Það var hannað af Brynhildi Sólveigardóttur en innanhúshönnun sá Leifur Welding um og verkfræðihönnun var í höndum Emils Þórs Guðmundssonar.
Mábil segir reksturinn hafa farið vel af stað en ekki hefur verið farið í mikla markaðsvinnu til þessa þar sem verið var að fá reynslu á reksturinn í nýrri byggingu. Hún hefur trú á íslenskri ferðaþjónustu þrátt fyrir þann sjó sem greinin hefur tekið á sig undanfarin misseri.
„Maður finnur fyrir gríðarlegum vilja. Við í í ferðaþjónustunni ætlum að byggja upp góða staði og góða þjónustu og mér finnst vera samheldni hjá okkur. Þótt það sé einhver lægð hjá ferðamanninum til Íslands þá held ég að það eigi eftir að jafna sig,“ segir Mábil og Elín tekur undir að það skipti máli að greinin standi saman.
„Við erum í samkeppni við allan heiminn og það eru gríðarlega margir á Íslandi að gera rosalega góða hluti í ferðaþjónustu. Í afþreyingu, gistingu og öllu mögulegu og við stöndum þétt saman.“ segir Elín.