Ég sef eins og engill hér í þessum fyrrverandi prestaskóla. Herbergið mitt er afar fábrotið, örfáir fermetrar með einbreiðu rúmi, örsmáu borði og litlum hörðum tréstól. Frammi á gangi er sturta og salerni sem er sameiginlegt. Þetta eru vistarverur prestanema fyrri tíma og ég kann vel við hversu frumstætt þetta er. Hér er gott að vera og mér hefur gengið vel að skrifa eftir að ég kom hingað,“ segir ljóðskáldið og rithöfundurinn Margrét Lóa Jónsdóttir þar sem hún gengur með blaðamanni um hið mikla völundarhús, Seminario Menor, en það er falleg risastór bygging í borginni Santiago de Compostela á Spáni, en þar býr hún í bili og einbeitir sér að skrifum.
„Ég er að vinna í tveimur handritum, ég er að fínpússa handrit að ljóðabók sem kemur út bráðlega og ég er líka að skrifa sögu sem tengist þessu svæði hér, Galisíu,“ segir Margrét og bætir við að prestaskólabyggingin fagra þar sem hún dvelur gegni nú nýju hlutverki sem gististaður fyrir pílagríma þegar þeir ljúka sinni göngu við dómkirkjuna í Santiago de Compostela.
„Þrjú hundruð manns geta sofið hér og fólk getur ýmist gist saman í stórum sölum eða leigt sér lítið herbergi, eins og ég er í. Hingað streyma pílagrímar alla daga en flestir gista aðeins eina nótt til að hvíla sig eftir gönguna og halda svo heim. Hér við hliðina er klaustur og þar eru munkar sem baka óskaplega gott brauð og kökur sem hægt er að kaupa af þeim í gegnum lúgu. Ég er alltaf að reyna að sjá þessa munka, en aðeins höndin á viðkomandi er sýnileg í það augnablik sem brauðið er rétt út í gegnum lúguna.“
Margrét segist hafa þráð í sjö ár að koma aftur til Santiago de Compostela, eða frá því henni var boðið á litla eyju í nágrenninu, San Simón, ásamt fleiri rithöfundum.
„Skáldkonan Yolanda Castaño bauð mér þangað í ljóðaþýðingavinnubúðir, en við Yolanda höfðum hist áður á ljóðahátíð í Nígaragva. Hún vildi gera tilraun til að brúa heim ljóða og tungumála og setti því saman fjölþjóðlegan hóp þýðenda. Við vorum frá Íslandi, Finnlandi, Rússlandi, Króatíu, Spáni og Slóvakíu og hjálpuðumst að við að þýða ljóðin okkar yfir á eigið tungumál. Ljóðin voru síðan gefin út á bók á frummálunum og galisísku,“ segir Margrét og bætir við að Yolanda hafi verið alin upp í borginni Santiago de Compostela og þangað hafi hún boðið Margréti með sér í dagsferð.
„Ég vaknaði hálfringluð daginn eftir, vildi einhverra hluta vegna ekki fara héðan. Þá hugsaði ég með mér að ég skyldi koma einn daginn til baka og ganga að minnsta kosti hluta af pílagrímaleiðinni um Jakobsveginn. Ég fann að ég yrði að koma aftur og dvelja hér um tíma, og nú er ég komin, sjö árum síðar, en sjö er heilög tala eins og allir vita. Dómkirkjan hér í Santiago er segulmögnuð, klukkur hennar náðu að kalla mig frá hundrað og einum í Reykjavík, þar sem ég bý og starfa í skjóli Hallgrímskirkju. Ég fór hingað til að njóta frelsis og skrifa, en mér fannst líka eðlilegt að ég færi hingað í ljósi þess að hér er það umhverfi sem tengist handritinu að ljóðabókinni sem ég er að klára. Auk þess er hér svið sögunnar sem ég er að vinna að. Ég hef lesið margar bækur undanfarið sem tengjast svæðinu hér, til dæmis allra fyrstu bókina hans Paulo Coelho um Jakobsveginn,“ segir Margrét sem hefur lokið pílagrímsgöngu sinni um veginn nú þegar viðtalið birtist, en með henni gekk vinkona hennar, Anna Lára Steindal.
„Við gengum síðustu 100 kílómetra frönsku leiðarinnar, lögðum upp frá Sarria hingað til Santiago og það var stórfengleg upplifun.“
Margrét segir að ljóðabókin sem hún sé að vinna að sé að hluta til dagbók af Jakobsvegi.
„Sagan sem ég vinn að gerist í Santiago en teygir sig heim til Íslands. Sagan er um manneskju sem er ein á ferðalagi og fer skrýtnar leiðir og kynnist mörgu áhugaverðu fólki. Þetta er spennusaga, en ég hef aldrei áður skrifað slíka sögu. Mig langar að vinna með það form og sjá hvað kemur út úr því. Ég hef verið að lesa hryllingssögur til að koma mér í form, hef kynnt mér varúlfasögur og annað slíkt héðan frá þessu svæði, en það er mikið um huldufólk, púka og djöfla í þjóðtrú Galisíubúa. Þetta minnir svolítið á okkar íslensku þjóðsögur,“ segir Margrét sem fannst ekki úr vegi að geyma bæði hvítlauk og lavenderblóm hjá sér í litla herberginu í prestaskólanum til að halda úti vampírum og moskítóflugum.
„Þegar ég hef lokið tveggja mánaða dvöl minni hér í Santiago fer ég í beinu framhaldi til Gotlands í Svíþjóð í annað miðaldaþorp, Visby, en þar mun ég dvelja í höfunda- og þýðendamiðstöð. Á þessari miðaldasiglingu sem ég er á þá finnst mér gott að enda för mína í Skandinavíu, því ég er mjög hrifin af sænskri ljóðagerð. Tranströmer er til dæmis yfirleitt á náttborðinu. Ég ferðast alltaf með heilmikið af ljóðum með mér og þakka Guði fyrir hljóðbækur, það þyngir svo farangur að ferðast með innbundnar bækur. Ég fer líka oft með ljóðabækur á ströndina, sumar þeirra eru níðslega þungar og myrkar og því finnst mér betra að lesa þær í sólskini.“