„Það hefur í gegnum tíðina verið dýrara að leysa málin með umhverfisvænum hætti en óumhverfisvænum hætti. Það hefur verið ódýrari leið að grafa draslið í holu frekar en að fara hina ábyrgu leið. Það hvarflar hins vegar ekki að okkur að fara þá leið. Ég væri þó að ljúga ef ég segði að okkur fyndist það ekki stundum pínu ósanngjarnt,“ segir Ágúst Torfi Hauksson framkvæmdastjóri Norðlenska en fyrirtækið lætur molta allan lífrænan sláturúrgang sem heimild er fyrir.
Frumvarp um urðunarskatt sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur lagt fyrir þingið hefur hins vegar þegar mætt nokkurri mótspyrnu hjá bæði sveitarfélögum og urðunarstöðvum sem hafa lýst yfir áhyggjum af að skatturinn leggist á íbúa óháð því hversu vel þeir standi sig við að flokka. Þannig leggst Sorpa alfarið gegn urðunarskattinum og segir í umsögn fyrirtækisins um frumvarpið augljóst að tilgangurinn sé „ekki verndun umhverfisins eða aukning í endurvinnslu eða endurnotkun“.
Urðunarskatturinn sé lélegt stjórntæki til að minnka úrgang og verði ekki mætt öðruvísi en með hækkun gjaldskrár sem bæði íbúar og fyrirtæki þurfa að greiða. Er bein útgjaldaaukning á íbúa á starfssvæði Sorpu talin nema 795 milljónum króna á ári og er það mat Sorpu að ekki sé hægt að tengja þann kostnað við það sem hver íbúi láti til urðunar, heldur verði að innheimta gjaldið sem aukagjald á hvern íbúa. Eins muni atvinnulífið þurfa að greiða um 1,6 milljarða króna og muni sá kostnaður líka með einhverju móti greiðast úr veskjum íbúa.
„Hvernig væri að láta þá borga sem búa til mestu mengunina?“ sagði Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, er þessi mál voru rædd með fjármálaráðherra á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga fyrr í mánuðinum. „Við viljum minnka neyslu, auka endurvinnslu og hætta að urða en farvegirnir eru ekki til og samfélagið þarf og vill meira,“ sagði Aldís og óskaði eftir því að sveitarfélögin gætu sjálf ráðstafað urðunarskattinum.
Í dag er sveitarfélögum landsins í sjálfsvald sett að ákveða hvaða háttur er hafður á varðandi urðun og endurvinnslu og þó í 59 af þeim 60 sveitarfélögum sem svöruðu könnun mbl.is um þessi mál fari einhver endurvinnsla fram eru þau engu að síður mislangt komin.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir mikilvægt að búnir séu til hvatar til að urða sem minnst. „Fyrir mér er mikilvægt að ríkið setji þessar grófu leikreglur — að skylda flokkun, reyna að samræma með hvaða hætti er flokkað og búa til hvata til að við urðum sem minnst,“ segir hann. Það sé jú urðunin sem sé að hafa mestu umhverfisáhrifin.
Frumvarpið sem fjármálaráðherra hefur lagt fyrir þingið um að búnir verði til efnahagslegir hvatar til að hætta að urða snúist einmitt um það. „Það er hreinlega of ódýrt að urða og þess vegna er ekki samkeppnishæft að fara í aðgerðir sem eru betri fyrir umhverfið, eins og að endurvinna. Með því að hækka verðið á urðuninni, þá verða aðrar aðferðir við að meðhöndla úrganginn hagkvæmari,“ segir Guðmundur Ingi.
Praktísk útfærsla þess með hvaða hætti hærri urðunarkostnaður leggist á fyrirtæki og almenning sé svo nokkuð sem sveitarfélögin þurfi að koma að. „Efnahagslegur hvati þarf að verða til þess að urðunin minnki, en hann þarf líka að vera í takt við mengunarbótareglu umhverfisréttarins sem gengur út á að sá sem mengar borgar,“ segir hann. „Ef neytandi eða fyrirtæki stendur sig vel við að flokka og sendir ekki í urðun þá á sá hinn sami að njóta þess, en með hvaða hætti það er gert er svo útfærsluatriði.“
Í grein sem þeir Magnús B. Jónsson, formaður stjórnar Norðurár bs. sem rekur urðunarstaðinn Stekkjarvík og Kristinn Jónasson, stjórnarformaður Sorpurðunar Vesturland, rituðu í Skessuhornið segja þeir til skynsamlegri leiðir að ná þeim markmiðum sem urðunarskattinum er ætlað að ná. „Það er hægt að minnka það sem fer til urðunar með því til dæmis að setja skilagjald á þá vöruflokka sem við viljum ekki að fari til urðunar. Eitt kíló af sorpi sem fer til urðunar er ekkert betra í jörðu komið þó það sé með urðunarskatti. Það er enginn umhverfisbati af því,“ skrifa þeir í grein sinni.
Eins ætti að leggja þá kröfu á stjórnvöld að lögð verði hærri innflutningsgjöld á óendurvinnanlega vöruflokka og banna alfarið innflutningi á óendurvinnanlegum umbúðum og hvetja þau fyrirtæki sem eru í innflutningi til landsins að finna leiðir til að minnka umbúðamagnið sem kemur með vörunum að utan. „Þannig minnkar strax verkefnið sem við þurfum að leysa.“
Magnús segir í samtali við mbl.is ýmis rök bæði efnahagsleg og tilfinningaleg geta verið með og móti urðun sorps. Er komi að loftslagsvánni snúist það hins vegar um að urðuninni fylgir losun gróðurhúsalofttegunda. „Það eru hinn raunverulegu umhverfisáhrif sem urðunarstaðurinn hefur,“ segir hann og kveður Norðurá í dag vinna að því að dæla upp gasi úr þeim hluta urðunarhólfsins sem er búið að topploka. Það gas er svo brennt í dag svo það valdi ekki skaða. „Við erum hins vegar að skoða nýtingarmöguleika og hvort að við getum breytt gasinu í raforku og nýtilegan hita.“
Nú þegar hafa verið boraðar sex holur til gasvinnslu á urðunarstaðnum í Stekkjarvík. Af þeim eru þrjár virkar í dag og er upp úr þeim dælt og brennt 33 m3/kls af gasi sem er 50% metangas.
Þegar gas- og jarðgerðarstöð Sorpu, sem hefja á starfsemi á næsta ári verður komin á fullt skrið, getur ársframleiðsla stöðvarinnar af metangasi orðið um 3 milljónir Nm3, sem getur komið í staðinn fyrir um fimm milljónir bensínlítra árlega.
Birgir Kristjánsson, framkvæmdastjóri umhverfissviðs hjá Íslenska gámafélaginu segir einn af mikilvægustu þáttum moltugerðarinnar með jarðvegsgerðinni vera að með henni sé verið að koma næringarefnum sem bundin voru í matvælunum aftur út í umhverfið þar sem þau nýtast til gróðursetningar og uppgræðslu. „Matarleifar sem eru urðaðar búa ekki einungis til metan, sem er allt að 25 sinnum sterkari gróðurhúsalofttegund en CO2 heldur tapast næringarefnin ofan í urðunarstöðunum,“ segir hann og bendir á að með því að nota moltu við gróðursetningu megi einnig minnka kolefnissporið enn frekar með því að draga úr notkun á tilbúnum innfluttum áburði.
Umhverfisráðherra tekur í sama streng. „Lífræni úrgangurinn er náttúrulega ekkert annað en gríðarlega verðmæt auðlind sem hægt er að búa til moltu úr sem má nota í garða og í landgræðslu,“ segir Guðmundur Ingi og bætir við að einnig sé verið að gera tilraunir með að nota moltuna sem áburð á tún.
„Fyrir mér er mikilvægt að ríkið setji þessar grófu leikreglur, að skilda flokkun, reyna að samræma með hvaða hætti er flokkað og búa til hvata til að við urðum sem minnst.“ Urðunin sé nefnilega eitt af því sem hafi hvað mest umhverfisáhrif. „Sérstaklega þegar lífræni úrgangurinn er urðaður, því þá verður til metangas sem er öflug gróðurhúsalofttegund sem er að valda loftslagsbreytingum. Þannig að sú vegferð sem við þurfum vera á og ramminn sem stjórnvöld búa til þarf að snúast um það að færa okkur úr urðuninni í að endurvinna og endurnýta.“
Urðunarstöðin Stekkjarvík, sem hefur í dag heimild til að taka á móti 21. tonnum til urðunar á ári, átti upphaflega að taka við úrgangi frá sex sveitarfélögum í Skagafirði og Austur Húnavatnssýslum og svo mögulega Eyjafjarðarsvæði. Nú tekur urðunarstaðurinn hins vegar við úrgangi frá öllum sveitarfélögum á Norðurlandi, frá Öxarfirði vestur til Hrútafjarðar, auk hluta þess úrgangs sem fer til urðunar af Suðurlandi en stöðin hefur sótt um að fá leyfi til að taka á móti 30.000 tonnum árlega. Sláturúrgangur er meðal þess lífræna úrgangs sem þar er urðaður og eru þar nú urðuð árlega um 3.400 tonn af sláturúrgangi og dýrahræjum.
Í svæðisáætlun sem tekur til starfssvæðis sorpsamlaganna Sorpu bs., Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf./Kölku sf., Sorpstöðvar Suðurlands bs. og Sorpurðunar Vesturlands hf. um meðhöndlun úrgangs fyrir árin 2009–2020 kemur fram að stjórnir sorpsamlaganna hafi ákveðið að hætta urðun lífræns og brennanlegs úrgangs eigi síðar en árið 2020.
Bann við urðun lífræns úrgangs er líka meðal aðgerða í nýrri stefnu um meðhöndlun úrgangs sem Umhverfisstofnun og umhverfisráðuneytið vinna nú að í samráði með sveitarfélögunum.
Þó ólíklegt verði að teljast að urðun lífræns úrgangs verði alls staðar hætt á næsta ári, er Magnús vel meðvitaður um að það horfi til þess að slíkt bann verði lagt á. Hann segir bara jákvætt að það dragi úr þeim lífræna úrgangi sem sé urðaður í Stekkjarvík, en bendir þó á að einhvers staðar verði þó sláturhúsaúrgangurinn að vera. Auk árstíðarbundinnar sveiflu vegna sláturtíðar sem jarðgerðarstöðvar þurfi þá að ráða við þurfi einnig að horfa til kostnaðarins. „Hvað mun það kosta og hver borgar,“ spyr hann. „Ef sláturleyfishafar þurfa að fara með þetta langan veg þá mun sá kostnaður koma fram hjá neytandanum.“
Ágúst Torfi, framkvæmdastjóri Norðlenska, kannast vel við að aukin kostnaður fylgi því að molta sláturúrganginn í stað þess að urða, en segir þó aldrei hafa komið til greina hjá fyrirtækinu að sleppa því að molta.
„Allt sem Molta má taka á móti það fer í moltun hjá okkur,“ segir Ágúst Torfi en allur lífrænn sláturúrgangur sem heimilað er að molta fer í jarðgerðarvinnslu og hefur gert frá því að Molta í Eyjafirði hóf störf árið 2009.
„Við tökum þetta mjög alvarlega innan fyrirtækis hjá okkur og reynum eins og við getum að draga úr úrgangsmyndun.“ Það gildi jafnt um lífrænan sem og annan úrgang og eins sé reynt að flokka eftir bestu getu.
Norðlenska er í hópi eigenda Moltu. Ágúst Torfi segir sveitarfélögin á svæðinu þó vera stærsta drifkraftinn að baki rekstrinum. „Við erum bara með og Molta hefði líklega ekki orðið að veruleika nema fyrir stórhug sveitarfélaganna á svæðinu.“
Hann segir að það væri vissulega ódýrara fyrir Norðlenska að urða sláturúrganginn í stað þess að molta. „Það hvarflar hins vegar ekki að okkur að fara þá leið,“ segir hann. „Ég væri þó að ljúga ef ég segði að okkur fyndist það ekki stundum pínu ósanngjarnt.“ Það sé „pínu einkennilegt að fyrirtæki sem starfa á svæðum þar sem sveitarfélögin hafa tekið lofsvert frumkvæði í umhverfisvænum leiðum til að losa sig við úrgang skuli þurfa að greiða hærri gjöld,“ en fyrirtæki í sveitarfélögum þar sem urðað er.
Gjöldin í Moltu hafi þó hækkað lítið og segir Ágúst Torfi muninn í dag orðinn miklu minni en hann var. „Það hefði líka verið gegn okkar stefnu að henda draslinu í holuna. Við erum hins vegar að keppa í bransa sem er mjög harður og lítil afkoma af og þá munar um allt,“ segir hann. „Ég mundi bara vilja sjá svipaðar lausnir og hefur verið að bjóða upp á hér fyrir norðan víðar. Þetta er klárlega besta leiðin sem við þekkjum núna til að vinna eitthvað gáfulegt úr lífrænum úrgangi, það er að nota hann til jarðvegsgerðar því þannig myndar hann minnsta umhverfissporið.“
„Við vorum fyrst sveitarfélaga til að fara þessa vegferð,“ segir Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi en í bæjarfélagið hefur flokkað pappír, plast, málma og lífrænan úrgang frá því árið 2008 og rokkar endurvinnsluhlutfallið í bæjarfélaginu nú á milli 60-65%. „Ég veit að umhverfisvitundinn hjá mér hefur risið aðra hæð miðað við það sem áður var á þessu eina og hálfa ári,“ bætir hann við en Jakob Björgvin tók við starfi bæjarstjóra eftir síðustu sveitastjórnarkosningar.
Hann segir mikla undirbúningsvinnu hafa verið unna áður en Stykkishólmsbúar hófu að flokka. „Það var gengið í öll hús í Stykkishólmi og nýju reglurnar kynntar og hvernig meðferð á flokkun væri,“ útskýrir hann. Sá undirbúningur hafi efalítið átt þátt í því að breytingarnar gengu áfallalítið fyrir sig.
Rúmum áratug síðar er flokkun orðin sjálfsagður hlutur í lífi Stykkishólmsbúa. Jakob Björgvin ólst upp í Stykkishólmi til 16 ára aldurs og þar sem hann bjó áður en hann flutti til baka fyrir rúmi ári síðan „hafði rétt svo verið komið á tveggja tunnu kerfi“ eins og hann orðar það. „Þegar maður kemur inn í samfélag þar sem þessi hugsunarháttur og umhverfisvitund er á svona háu plani þá finnur maður hvernig maður umbreytist í hugsunarhætti,“ segir Jakob Björgvin og kveður hana vera orðna Stykkishólmsbúum eðlislæga.
Þegar horft er yfir landið í heild virðast fyrirtækin standa almenningi að baki þegar kemur að flokkun og segir ráðherra að samkvæmt tölum Umhverfisstofnunnar komi um 60% af því sem urðað er frá fyrirtækjum, en 40% frá heimilunum.
Jón G. Valgeirsson formaður stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands tekur í sama streng og segir heimilin ekki vera með stærsti hluta úrgangsins. „Það eru fyrirtækin og ferðamennirnir,“ segir hann og kveður 30% af sorpi á Suðurland koma frá heimilum, restin sé frá fyrirtækjum og ferðamönnum. Að sögn Jóns vinna þó sveitafélög á Suðurlandi nú að að því að setja flokkunarskyldu á þessa aðila.
Í frétt sem birt var á vef Sorpu í febrúar á þessu ári segir að mikil umræða um áhrif plasts á umhverfið virðist þó vera að skila betri vitund og jókst flokkun plasts hjá notendum Sorpu þannig um 38% milli áranna 2017 og 2018. Samkvæmt baggarannsókn Sorpu má þó gera ráð fyrir að hátt í 30.000 tonn af plasti hafi farið til urðunar í fyrra og að það plast komi að langstærstum hluta fyrirtækjum.
„Með því að samræma flokkunina þá eigum við auðveldara með að ná til ferðamanna sem neytenda,“ segir Guðmundur Ingi og vísar þar til frumvarps sem er í vinnslu í ráðuneyti hans um úrgangsmál. Þar er lagt er upp með að það verði skylda að flokka heimilisúrgang og að samræmdar merkingar verið settar á flokkunina. „Þarna spila fyrirtækin líka stóra rullu og þegar kominn er efnahagslegur hvati fyrir fyrirtækin að senda ekki í urðun og og hvati til flokkunar komin í regluverkið þá verða fyrirtækin líka orðin virkari þátttakendur í því að leiðbeina viðskiptavinum sínum, þar með talið ferðamönnum.“
Sú virðist að minnsta kosti vera staðan á Stykkishólmi þar sem endurvinnsluhlutfallið af öllum úrgangi rokkar á milli þess að vera 60-65%. Að sögn Jakobs Björgvins eru atvinnurekendur þar í bæ ekki síður duglegir að flokka en íbúar. „Það eru alltaf einhverjir ferðamenn sem vita ekki af þessu,“ segir hann. „Ferðaþjónustan og atvinnurekendur í Stykkishólmi eru hins vegar meðvitaðir um þetta og eru að flokka og þeir reyna að stýra þeim gestum sem hingað koma í þá áttina líka.“
Nokkur fyrirtæki standa sig þó vel í þessum efnum. Verslunarkeðjan Krónan hefur til að mynda lagt mikla áherslu á endurvinnslu og umhverfismál, m.a. með því að reyna að draga úr umbúðaúrgangi og matarsóun. Þá hefur verkfræðistofan Efla vakið athygli fyrir öflugt starf við að draga úr kolefnisspori fyrirtækisins og má telja ólíklegt að mörg fyrirtæki hafi náð víðlíka árangri við að draga úr þeim úrgangi sem fer frá þeim til urðunar, en Efla náði að koma 88% úrgangs í endurvinnslu á síðasta ári.
„Við setjum okkur stíf markmið og það er áskorun að halda áfram á þessari vegferð,“ sagði Helga J. Bjarnadóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs Eflu í viðtali við mbl.is árið 2017. Endurvinnslumarkmið fyrirtækisins fyrir þetta ár eru svo sett við 90%.
Meðal þeirra aðferða sem Norðlenska hefur farið til að draga úr úrgangsmyndun er að finna leiðir til að nýta vörur sem áður töldust úrgangur og breyta þeim í framleiðsluvöru. Ágúst Torfi nefnir sem dæmi að Norðlenska selji nú bæði til manneldis til landa þar sem neysla þessara vöruflokka þekkist og í dýrafóður alla innfitu, garnir, vambir, þindar, lungu og hálsæðar. „Þannig að það sem við hendum er alveg ótrúlega lítið.“
Mjög góður árangur hefur enda náðst varðandi nýtingu á sauðfénu. „Við hendum næstum ekki neinu þar,“ segir hann. „Hún er þó enn leiðinlega mikil í stórgripadæminu en það er bara verkefni sem við erum að vinna í núna — að auka nýtingu á svínum og nautum og við erum alveg að ná árangri þar.“
Benedikt Benediktsson, framleiðslustjóri hjá SS, segir allan lífrænan sláturúrgang hjá fyrirtækinu fara í Orkugerðina þar sem hann sé nýttur frekar. „Við sendum hann allan í Orkugerðina í Flóanum þar sem verður til kjötmjöl og fita,“ segir hann. Hluta af fitunni sem verður þar til hyggst SS svo nýta til orkugerðar í stað olíu og segir Benedikt skoðun á þeim málum vera nokkuð langt komna.
Spurður hvort það fylgi því viðbótarkostnaður fyrir SS að senda úrganginn í Orkugerðina í stað urðunar, svarar hann: „Auðvitað fylgir þessu kostnaður fyrir hvert kíló, en ef við ætluðum okkur að urða þá þyrftum við alltaf að borga það líka og svo er þetta líka miklu betri leið.“
Norðlenska hefur sömuleiðis farið „í talsverðar æfingar“ við að lágmarka magnið af þeim úrgangi fer í brennslu, en samkvæmt reglugerð Matvælastofnunnar fellur hluti dýraafurða í áhættuflokk eitt og ber að eyða slíkum úrgangi með bruna.
„Við erum núna að ganga lengra en við gerðum áður í að taka bara þann hluta sem um ræðir, skera hann frá og setja í brennslu á meðan restin fer í moltun,“ segir Ágúst Torfi og kveður sláturhús Norðlenska á Húsavík dæmi um hve vel hafi tekist til. „Þar vorum með krókgám fyrir þennan lífræna úrgang en erum nú komin með eitt kar, þannig að menn hafa náð verulegum árangri.“
Þingsályktunartillaga var lögð fram í annað skipti á Alþingi í síðasta mánuði um að umhverfis- og auðlindaráðherra verði fengið að kanna hagkvæmni og möguleika þess að reisa hátæknisorpbrennslustöð sem meðhöndli mest allt eða allt sorp sem ekki er unnt að endurvinna hér á landi. Kveður tillagan á um að ráðherra verði gert að kynna þingheimi niðurstöðuna fyrir 1. apríl á næsta ári, en flutningsmenn þingsályktunartillögunnar eru þingmenn Miðflokksins ásamt þeim Birni Leví Gunnarssyni þingmanni Pírata og Ásmundi Friðrikssyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins.
Einungis ein sorpbrennslustöð er starfrækt á Íslandi í dag og er það Kalka á Reykjanesinu. Afgangsvarmaorka stöðvarinnar er nýtt að hluta til að hita upp húsakynni Kölku en sú brennsla sem þar fer fram flokkast þó að mestu til förgunar.
Jón Norðfjörð fráfarandi framkvæmdastjóri Kölku, segir hluta afgangsvarma vegna brennslustöðvarinnar vera notaðan til að hita upp stöðina og plönin. „Það er þó ekki nægjanlegt til að stöðin sé talin til endurnýtinga eða endurvinnslu,“ segir hann og svarar því játandi að hægt væri að ná fram meiri endurnýtingu með brennslunni. „Það var gert í byrjun og það er þarna túrbína sem menn voru að reyna að reka fyrstu árin. Þetta var hins vegar erfitt og raforkuframleiðslan gekk illa vegna þess hve orkan frá brennslustöðinni var óregluleg og menn gáfust því bara upp,“ bætir Jón við. „Þetta er þó eitthvað sem menn vilja skoða nánar og verður eitt þeirra verkefna sem bíður Steinþórs Þórðarsonar nýs framkvæmdastjóra.“