Enginn lærir að lesa nema með ástundun og þegar barn hefur lært 19 bókstafi og hljóð þeirra hefur það brotið lestrarkóðann og áttar sig á því hvernig á að lesa. Því er svo mikilvægt að nota aðferðir á borð við hljóðaaðferðina við lestrarkennslu. Fullyrðingar á borð við að strákar séu seinþroska gera ekkert annað en að draga úr þeim kjarkinn og hamla þeim í námi. Þetta er meðal niðurstaðna nýrra rannsókna á lestarnámi sem Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálfræði við HR og Háskólann í Þrándheimi í Noregi birti nýverið.
„Lestur er eins og dulmál þangað til barnið er búið að brjóta kóðann. Fram að því hefur það ekki hugmynd um hvernig á að lesa,“ segir Hermundur sem segir að þetta sé í fyrsta sinn sem samspilið á milli bókstafa og hljóða þeirra sé rannsakað með þessum hætti. Rannsóknina byggði hann m.a. á niðurstöðum norska kennarans Gretu Ofteland sem skoðaði lestrarfærni um 500 norskra barna við upphaf skólagöngu.
Í rannsókninni sem Hermundur vann við Háskólann í Þrándheimi kom m.a. fram að 11% barna eru læs þegar þau byrja í skóla og 70% af þeim eru stelpur. 27% barna eru ólæs eftir fyrsta árið og 70% þeirra eru strákar.
Hermundur segir að vel ætti að vera hægt að minnka þennan kynjamun, jafnvel draga úr honum. „Áður fyrr lærðu nánast allir, bæði stelpur og strákar, að lesa í kringum jól í 7 ára bekk, svo framarlega sem þeir voru ekki með leserfiðleika. Við þurfum að vera tilbúin að brúa þetta bil, en við þurfum þá líka að vera tilbúin að byggja á rannsóknum.“
Hermundur segir að stelpur babli meira fyrsta árið og rannsóknir hafi sýnt að meira sé talað við þær. „Við erum að tala meira við stelpur. Ef strákar fengju sömu örvun væri kynjamunurinn ekki svona mikill.“
„Í niðurstöðum Pisa rannsóknarinnar frá 2015 er kynjamunur í öllum löndum þannig að stelpur eru betri í lesskilningi en strákar. Mín rannsóknarspurning var; hvenær byrjar þessi mismunur? Mér finnst að við eigum ekki að sætta okkur við þá skýringu að strákar þroskist svo seint og þess vegna séu þeir seinni að læra að lesa en stelpur. Lestur hefur ekkert með þroska að gera; lestur er þjálfun og hvernig ætti einhver að geta lært að lesa þegar hann fær að horfa á sjónvarpið alla daga og sér sjaldan bók?“ spyr Hermundur.
Hann segir að oft sé líka sagt að strákar geti ekki unað lengi við. „Þetta er ekki rétt. Ef strákur getur setið í 2-3 tíma til að horfa á fótbolta, þá getur hann vel sest niður og lesið bók.“ Þjálfa þurfi lestur, rétt eins og alla aðra færni og honum þyki sú skýring að strákar séu óþroskaðir frekar ódýr. „Hún gerir engum gagn og skemmir fyrir strákunum sjálfum sem fá sífellt að heyra að þeir séu svo óþroskaðir, að þeir geti minna og séu svo lengi að læra að lesa.“
Hermundur hefur um nokkurt skeið gagnrýnt þær aðferðir sem notaðar eru við lestrarkennslu hér á landi, einkum Byrjendalæsi sem er afar útbreidd aðferð. Hann hefur sagt hljóðaaðferðina einu raunprófuðu lestrarkennsluaðferðina, en með hljóðaaðferðinni er átt við að nemendur læra heiti bókstafanna, hvaða hljóð þeir eiga og hvernig tengja á hljóðin saman í orð. Hann segir niðurstöður rannsókna sinna styðja við þetta.
Hann hefur sagt skorta á að hér séu notaðar raunprófaðar aðferðir og gagnrýnir ennfremur þá miklu áherslu sem er á lestrarhraða hér á landi, en hann er mældur að jafnaði þrisvar á ári hjá hverju grunnskólabarni. „Börnin sem lesa hægt upplifa sig þá sem tapara. Er það eitthvað sem við viljum?“
Hermundur segist einnig afar tortrygginn gagnvart notkun snjallsíma í skólastarfi. „Rannsóknir sýna að ef síminn er innan seilingar, hvort sem hann er á borðinu eða í töskunni, þá minnkar einbeitingin. Síminn tekur orku frá bæði börnum og fullorðnum, hann er „braindrain“,“ segir Hermundur og segist fagna því þegar hann heyrir af skólastjórum sem banna símanotkun í skólum. „Í skólanum eiga börnin að eiga samskipti, njóta samveru. Hvað gerir iPad eða snjallsími? Hann dregur úr samveru.“
„Við segjum gjarnan að við viljum góða skóla, góða kennslu og að við séum tilbúin til að gera allt fyrir börnin. Gott og vel - þá skulum við standa við það. Hættum að sætta okkur við að næstum því einn af hverjum þremur strákum og um 15% stelpna geti ekki lesið almennilega eftir tíu ára grunnskólagöngu. Förum að hlusta á það sem vísindin segja, það sem rannsóknir sýna. Við erum að tala um börnin okkar. Við höfum ekki efni á að bjóða þeim upp á neitt annað en það besta.“