Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist ekki hafa skoðað sérstaklega reglugerð um Reykjalund sem var í gildi til ársins 2008. Á grundvelli reglugerðarinnar gátu stjórnvöld meðal annars skipað einstakling í stjórn SÍBS, en formaður læknaráðs Reykjalundar sagði í samtali við mbl.is að það væri „hræðilegt að heilbrigðisyfirvöld hafa ekki lengur lagalega heimild til eins eða neins“.
„Við höfum nú ekki verið að skoða þetta sérstaklega. Aðalatriðið að mínu mati núna er að það komist ró á starfsemina. Nú er kominn nýr tímabundinn forstjóri og nýr framkvæmdarstjóri lækninga og ég held að það allra mikilvægasta núna sé að það komist á ró og síðan þarf að skoða önnur mál í framhaldinu,“ segir Svandís í samtali við mbl.is.
Að sögn Magdalenu Ásgeirsdóttur, formanns læknaráðs Reykjalundar, felldi þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, umrædda reglugerð um Reykjalund úr gildi, sem hafði samkvæmt Magdalenu verið til frá árinu 1945.
Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag var Svandís spurð um málefni Reykjalundar. Sagði Svandís það áfall hvað varðar fagmennsku á staðnum að þessi hluti heilbrigðisþjónustunnar byggði ekki á traustari grunni en fram hefur komið í málinu.
Svandís segir að nú sé mikilvægt að koma þjónustunni í samt horf og gefa nýjum stjórnendum Reykjalundar tækifæri á að greiða úr málum innanhúss.
„Ég hef heyrt í fólki og reynt að leggja mitt á vogaskálarnar svo það komist ró á starfsemina og að allt komist aftur í samt lag. Þessar breytingar voru bara tilkynntar í dag og við þurfum að gefa þessum nýju stjórnendum tíma til þess að átta sig á stöðunni.
„Það er mikilvægt að öll heilbrigðisþjónusta sé byggð á traustum grunni og ekki síst svona lykilstarfsemi eins og þarna er. Það skiptir líka máli að hlutirnir séu gerðir í réttri röð og núna skiptir mestu máli að þessir nýju stjórnendur fái ráðrúm til þess að koma hlutunum aftur á réttan kjöl. Við skulum byrja þar bara,“ segir Svandís.