„Það er áfall hvað varðar fagmennskuna á staðnum en ekki síður fyrir sjúklinga og almenning í landinu að þessi mikilvægi hluti heilbrigðisþjónustunnar byggi ekki á traustari grunni en þarna kemur fram.“ Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á Alþingi í gær um uppsagnir á Reykjalundi í óundirbúnum fyrirspurnartíma.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, beindi spurningum sínum til heilbrigðisráðherra um málefni Reykjalundar. „Hvernig tryggjum við skýran ramma og ábyrgðarkeðju fyrir þá sem veita þessa mikilvægu þjónustu? Eru hugmyndir um að ráðherra skipi aðila í stjórn Reykjalundar, eins og var fram til ársins 2009?“ Svandísi var ekki kunnugt um hvers vegna sá fulltrúi á ekki lengur sæti í þeirri stjórn og setur spurningamerki við það.
Svandís sagði að fara þyrfti yfir þessa þætti með tilliti til samninga því mikilvægt væri að tryggja traustan grunn bæði faglegan og rekstrarlegan. Hún hafi kynnt sér málið og rætt við starfsfólk, stjórnendur og stjórnarmenn SÍBS og hvatt til að leysa málið svo ró kæmist á starfsemina. Uppsagnirnar og ólgan hafi komið henni á óvart í ljósi áralangs stöðugleika sem hafi verið fyrir hendi sem og faglegs trausts sem hefur umlukið starfsemina.
Á fimmtudaginn lýstu rúmlega hundrað starfsmenn á Reykjalundi yfir vantrausti á stjórn Reykjalundar og afhentu heilbrigðisráðherra yfirlýsinguna.