Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segist ekki skilja hvað fer fram á ráðstefnum Vestnorræna ráðins. Inga er í ráðinu og fer ásamt fleiri fulltrúum Alþingis til Grænlands á fund þar til að ræða við vini, félaga og nágranna, eins og Inga orðaði það á þingfundi.
„Sjaldan eða aldrei hefur verið meiri ástæða en nú til að eiga góða rödd með vinum okkar, Grænlendingum og Færeyingum, hvað lýtur að sérstöðu okkar hér á norðurslóðum. Við erum nýlega búin að halda hér einhverja glæsilegustu ráðstefnu sem haldin hefur verið þar sem voru um 60 lönd og 2.000 þátttakendur,“ sagði Inga og átti þar við Arctice Circle ráðstefnuna sem fór fram í Hörpu.
Hún sagði að sér væri sómi sýndu að vera í „svokölluðu“ Vestnorrænu ráði.
„Frá því að ég kom á hið háa Alþingi og var boðið að vera í Vestnorræna ráðinu hef ég barist fyrir því, verð ég að viðurkenna, að skilja yfir höfuð hvað fer fram á þeim ráðstefnum sem ég sæki þegar ég sæki frændur okkar heim. Mér þykir við vera að spara aurinn og fleygja krónunni þegar hluti af okkur, ég veit ekki hversu mörg, en ég sé það á þessum samkomum okkar að við erum ansi mörg, er ekki bær til þess að tjá sig af neinu viti eða neinni skynsemi um það sem þar fer fram,“ sagði Inga.
„Ég skora á alla sem geta komið að því og segi: Ef einhvern tíma var þörf á að sendinefnd Íslendinga í Vestnorrænu ráði geti tjáð sig og talað og tekið þátt í starfinu þá er það akkúrat núna,“ bætti Inga við.