Sala á húsi Skúla Mogensen, fyrrverandi forstjóra WOW Air, er á vegum Skúla, ekki Arion banka. Þetta segir Skúli í samtali við mbl.is.
Hann vildi ekki tjá sig frekar um málið og lét ekkert uppi um það hvort salan á húsinu sé hluti af skuldauppgjöri við Arion banka.
Húsið er eitt dýrasta hús landsins en það er staðsett við Hrólfsskálavör tvö á Seltjarnarnesi. Fréttablaðið hafði eftir heimildum sínum í ágúst síðastliðnum að kaupverðið væri um 700 milljónir króna en Skúli veðsetti húsið fyrir 358 milljónir í fyrra.
Skúli keypti húsið árið 2016 en þá var kaupverð þess um 300 milljónir króna. Þá var húsið óklárað og hafði staðið þannig um tíma. Skúli keypti húsið af Eiríki Sigurðssyni sem stofnaði 10-11 verslanirnar og átti Víðisverslanirnar, að því er fram kemur í frétt Borgarblaða sem birtist árið 2016.
Þegar Skúli keypti húsið 2016 samþykkti skipulags- og umferðarnefnd Seltjarnarnesbæjar að byggingareitur lóðarinnar sem hús Skúla stendur á yrði stækkaður bæði til vesturs og suðurs. Þá var aukið byggingamagn leyft á lóðinni. Birt flatarmál var áður 572,1 fermetri en stækkaði í 607,1 fermetra með þessum breytingum.
Sérstök vefsíða hefur verið stofnuð vegna sölunnar á heimili Skúla, oceanvillaiceland.com, og virðist hún einungis þjóna þeim tilgangi að koma húsinu út. Markhópur síðunnar er að öllum líkindum erlendur en síðan er öll á ensku og er sérstakur flipi á síðunni sem ber heitið „Why Iceland“ þar sem ímynd Íslands er nýtt til að koma húsinu enn frekar á framfæri.