Telur samgöngusamkomulag brotið

„Hvernig getur Reykjavíkurborg, eitt stjórnvald sem stendur að þessum samningi, …
„Hvernig getur Reykjavíkurborg, eitt stjórnvald sem stendur að þessum samningi, staðið fyrir gjörning af þessu tagi?“ spurði Vigdís. mbl.is/​Hari

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, sagði á fundi borgarstjórnar í dag að Reykjavíkurborg hefði nú þegar brotið samkomulag ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu samgönguinnviða.

Það telur Vigdís að borgin hafi gert með því að auglýsa rammasamning sem ekki rúmist innan samkomulagsins. Þessu er borgarstjóri ósammála.

„Reykjavíkurborg er að brjóta samkomulagið með því að hafa farið af stað eitt sveitarfélaga. […] Reykjavíkurborg hefur ekki góða reynslu af því að vinna verkin ein,“ sagði Vigdís.

„Í gær, daginn áður en til stendur að samþykkja þetta samkomulag í borgarstjórn þá var auglýstur rammasamningur um stýribúnað umferðarljósa. […] Hvers vegna, borgarstjóri, er Reykjavíkurborg ein að fara af stað með rammasamning þennan […] daginn áður en til stendur að samþykkja þetta fyrir hönd borgarinnar í borgarstjórn? Hvernig getur Reykjavíkurborg, eitt stjórnvald sem stendur að þessum samningi, staðið fyrir gjörning af þessu tagi?“

Dagur er ósammála Vigdísi og hvatti hann hana til að …
Dagur er ósammála Vigdísi og hvatti hann hana til að spara stóru orðin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vinnubrögðin „ekki boðleg“

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, svaraði því til að framsetning rammasamningsins væri ekki í mótsögn við samkomulagið.

„Ég þekki ekki innihald þessa rammasamnings í neinum smáatriðum en eins og kom fram í umræðu um ljósastýringu fyrir nokkrum vikum þá hefur Reykjavíkurborg auðvitað sinnt umferðarljósastýringu árum saman […] og er að mörgu leyti leiðandi í þessu. […] Ég geri ráð fyrir því að með nýja samkomulaginu muni allir leggja á ráðin um það hvernig er best að haga þessum málum til framtíðar. Hvort og hvernig þessi rammasamningur komi inn í það verður að koma í ljós.“

Vigdís var ósátt með tilsvör borgarstjóra en hún sagði þau fela í sér undanbrögð.

„Það er svo skrýtið að þetta sé farið af stað núna fyrir utan samkomulagið. Blekið er ekki þornað á samkomulaginu, það er ekki búið að samþykkja það hér í borgarstjórn. Þá er strax farið að pikka út úr samningnum og Reykjavíkurborg ætlar bara að sjá um þetta sjálf, fyrir utan samkomulagið. Þetta er með ólíkindum, þessi vinnubrögð eru ekki boðleg.“

Dagur sagði Vigdísi loks að spara stóru orðin og lofaði hann að afla frekari upplýsinga um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert