Þjóðvegir og þéttbýli eins og sambúðarfólk

Margrét ræddi í erindi sínu sérstaklega um sambúð þjóðvega og …
Margrét ræddi í erindi sínu sérstaklega um sambúð þjóðvega og þéttbýlis – hvort að líta ætti á þjóðvegina sem gesti í þéttbýliskjörnum eða hvort þéttbýlin væru gestir við þjóðveginn. mbl.is/Hari

Þjóðvegum í þéttbýli fylgja hagsmunaárekstrar á milli þeirra sem þurfa að komast leiðar í gegnum þéttbýlið, hratt og örugglega og þeirra sem í þéttbýlinu búa og vilja komast leiðar sinnar á öruggan hátt.

Margrét Silja Þorkelsdóttir, deildarstjóri tæknideildar Vegagerðarinnar á Akureyri, líkir þessum hagsmunaárekstrum við þá sem geta komið upp í sambúð tveggja einstaklinga – oftast sé sambúðin í lagi en stundum sé hún stormasöm og þurfi gott samstarf og vinnu til að ganga upp. Ákveðnum hluta sé svo best borgið með að skilja.

Hún sagði þessa hagsmunaárekstra vera helstu áskorunina er kemur að því að móta þjóðvegi í þéttbýli, í erindi sínu á morgunverðarfundi um umferðaröryggi í þéttbýli, sem Vegagerðin stóð fyrir á Grand Hótel í morgun.

Margrét Silja Þorkelsdóttir, deildarstjóri tæknideildar Vegagerðarinnar á Akureyri.
Margrét Silja Þorkelsdóttir, deildarstjóri tæknideildar Vegagerðarinnar á Akureyri.

Þar voru umferðaröryggismál í þéttbýli rædd frá ýmsum sjónarhornum, en Margrét ræddi sérstaklega um sambúð þjóðvega og þéttbýlis – hvort að líta ætti á þjóðvegina sem gesti í þéttbýliskjörnum eða hvort þéttbýlin væru gestir við þjóðveginn.

Margrét segir það afar háð aðstæðum á hverjum stað hvort Vegagerðin telji æskilegt að vinna að því að færa þjóðveganetið út fyrir þéttbýlisstaði í landsbyggðunum.

„Ef það er rosalega skýr hjáleið til staðar og hátt hlutfall gegnumakstursumferðar, myndi ég segja að það væri ráðlegt að færa þjóðveginn út fyrir, eins og hefur verið fært í skipulag bæði við Selfoss og við Borgarnes, ef ég man rétt. En við minni þéttbýli og þéttbýli þar sem er fjallshlíð beggja vegna og ekki nein möguleg leið framhjá, eins og á Akureyri sem dæmi, þá þurfa þessir tveir aðilar að mætast, þéttbýlisumferðin og þjóðvegurinn. Vegagerðin lítur þá aðallega til þess að reyna að tryggja öryggi allra sem fara um þessa vegi, en jafnframt að tryggja greiðfærni og öryggi þeirra sem aka í gegn,“ segir Margrét. Það vill Vegagerðin gera með góðum og öruggum gönguþverunum.

Umferðaröryggisáætlanir mikilvæg tól

Margrét segir að umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga séu gríðarlega mikilvægt tól, en við gerð þeirra setjast að borðinu samráðshópar með fulltrúum sveitarfélagsins, Vegagerðarinnar, lögreglu, slökkviliðs, íbúa og fleirum og setja saman áætlun þar sem aðgerðum í þágu umferðaröryggis.

Fram kom í erindi Svanhildar Ólafsdóttur, samgönguverkfræðings frá VSÓ, að tuttugu sveitarfélög hefðu þegar gert umferðaröryggisáætlun og níu sveitarfélög til viðbótar ynnu að gerð slíkrar áætlunar.

Fjöldi fólks sótti fundinn á Grand Hóteli í morgun.
Fjöldi fólks sótti fundinn á Grand Hóteli í morgun. Ljósmynd/Vegagerðin

Margrét Silja segir að hún telji þessar áætlanir besta tólið til að vinna að umferðaröryggi í þéttbýli, því að þegar fjármagn fáist til verkanna sé forgangsröðunin skýr og greið leið sé til að hefjast handa. „Ég tel líka mikilvægt að sveitarfélögin vinni sitt skipulag vel, því eftir því sem við erum undirbúnari því auðveldara er að fá inn fjármagn og byggja upp eftir því,“ segir Margrét.

Hjólastígar á ábyrgð sveitarfélaganna

Sumstaðar um landið hafa sveitarfélög lagt aukna áherslu á uppbyggingu hjólastíga, jafnvel meðfram þjóðvegum sem eru á forræði Vegagerðarinnar. Stundum heyrast þær raddir að Vegagerðin ætti að koma að þessum málum af auknum þunga þannig að hér á landi verði til net öruggra hjólastíga á milli þéttbýlisstaða.

„Þetta er sífellt í umræðunni, en eins og er þá er stígakerfið og uppbygging þess á ábyrgð sveitarfélaga. Aðkoma Vegagerðarinnar að þessu málefni er þá í formi styrkveitinga til sveitarfélaga með það að markmiði þá að færa umferðina af þjóðvegunum þar sem það þykir hættulegt og yfir á öruggari stíga,“ segir Margrét.

Vegagerðin hefur þó horft til þess í nýlegum verkefnum að koma umferð hjólandi á öruggari slóðir en í vegaxlir margfarinna þjóðvega. Slíkt var til dæmis að eitt af meginmarkmiðunum í þeirri framkvæmd sem nú stendur yfir við endurnýjun Suðurlandsvegar á milli Hveragerðis og Selfoss, en þar var að sögn Margrétar álitið hættulegt og beinlínis óæskilegt að hjóla.

Við framkvæmdina verður til hliðarveganet, er nýi vegurinn verður tekið í gagnið og segir Margrét að skoðað  hafi verið hvort það ætti að leggja þar sér stíg fyrir hjólaumferð eða breikka vegaxlir í hliðarveganetinu. Síðarnefnda lausnin varð ofan á.

„Það á að fara mjög lítil umferð um þessa hliðarvegi, við erum að áætla að það sé undir 300 bíla umferð á dag, svo sannarlega var tekið tillit til þess við nýbyggingu vegarins, en annars er þetta á valdi sveitarfélaganna, að byggja upp stíga,“ segir Margrét.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka