GAMMA stefnir á að tryggja Upphafi, fasteignafélagi fjárfestingasjóðs GAMMA, viðbótarfjármögnun í þessari viku og tryggja þar með rekstur félagsins. Þetta herma heimildir mbl.is.
Máni Atlason, framkvæmdastjóri GAMMA, gat lítið tjáð sig um fjármögnunina þegar mbl.is náði tali af honum í dag.
„Eins og við höfum áður gefið út náðum við góðum áfanga í síðustu viku með samþykki skuldabréfaeigenda. Við munum vinna áfram í málinu og kappkosta að ljúka þessu eins fljótt og hægt er,“ segir Máni.
Í byrjun mánaðar kom fram að tryggja þyrfti nýja fjármögnun til að forða Upphafi frá falli. Félagið er með 277 íbúðir í byggingu. Eigið fé Upphafs hafði verið ofmetið og kostnaður vanmetinn.
Skuldabréfaeigendur Upphafs samþykktu skilmálabreytingar á skuldum félagsins í síðustu viku en þær breytingar voru nauðsynlegar til að ljúka viðbótarfjármögnun með nýju skuldabréfi að fjárhæð eins milljarðs króna.
Máni gat ekki svarað því hvort tafir yrðu á byggingu íbúðanna vegna fjárhagsvandræðanna.„Það myndi alltaf vera til bóta að tryggja fjárhaginn til lengri tíma.“