Af og til grunur um gæludýraeitrun

Hundur hjá dýralækni. Mynd úr safni.
Hundur hjá dýralækni. Mynd úr safni. AFP

Af og til koma upp tilvik þar sem grunur leikur á að eitrað hafi verið fyrir gæludýrum með því að bæta frostlegi eða öðrum skaðlegum efnum út í mat sem látinn er liggja á víðavangi. Þetta segir Konráð Konráðsson dýralæknir hjá Matvælastofnun, MAST, en slíkur grunur er gjarnan tilkynntur þangað. Hann segir fjölda slíkra tilkynninga ekki hafa verið tekinn saman, en augljóst sé að fólk hafi varann á sér ekki síst í ljósi frétta af dýraníði sem þessu.

Fyrir skömmu veiktist tíkin Kózý, sem búsett var í Hveragerði, alvarlega, henni var síðan lógað og skoðun dýralæknis leiddi í ljós að hún hafði orðið fyrir eitrun frá frostlegi. Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem mál af þessu tagi kom upp í bænum, en síðustu ár hafa nokkrir kettir drepist af völdum frostlagar sem hellt hafði verið yfir mat sem lá úti. 

Frostlögurinn litar matinn

Konráð segir að þegar kjöt eða önnur matvæli hafi verið menguð með frostlegi megi sjá það greinilega þar sem lögurinn er yfirleitt annaðhvort rauður eða blár og litar matinn. „Það hafa komið upp allnokkur tilvik um þetta, flest í Hveragerði en líka á Selfossi og einstaka tilfelli á höfuðborgarsvæðinu. Yfirleitt er þetta greint þegar fólk kemur með dýrin sín til dýralæknis, en einkennin koma yfirleitt fram sem nýrnabilun og það er staðfest með rannsókn hvort um frostlagareitrun sé að ræða,“ segir Konráð.

Hann segir að í einhverjum tilvikum hafi þótt liggja ljóst fyrir að um hafi verið að ræða viljaverk þar sem einhver eitraði vísvitandi fyrir dýrum. Í öðrum tilvikum hafi verið erfitt að fullyrða slíkt. „Það óhapp getur gerst að dýr drekki úr polli sem frostlögur hefur lekið í. En við skoðum alltaf allar ábendingar sem við fáum,“ segir Konráð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert