Áforma ekki frekari útvistun til einkahlutafélaga

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra áformar ekki frekari útvistun á þjónustu hjúkrunarheimila til einkahlutafélaga. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Guðjóns S. Brjánssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um rekstur hjúkrunarheimila.

Guðjón spurði sérstaklega um Vigdísarholt ehf., einkahlutafélag í eigu ríkisins. Það annast rekstur hjúkrunarheimilanna Sunnuhlíðar í Kópavogi og Seltjarnar á Seltjarnarnesi.

„Ríkissjóður Íslands á og rekur Vigdísarholt ehf. Stjórn þess skipa Steingrímur Ari Arason, Kristinn Hjörtur Jónasson og Þórhildur Kristinsdóttir,“ segir í svari ráðherra þegar spurt er hver á og rekur Vigdísarholt.

Ekki hefur verið gerður samningur um reksturinn við heilbrigðisráðuneytið en félagið fær greitt fyrir veitta þjónustu samkvæmt gjaldskrám Sjúkratrygginga Íslands, annars vegar gjaldskrá fyrir þjónustu hjúkrunarheimila sem ekki eru á föstum fjárlögum árið 2019 og eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands og hins vegar gjaldskrá fyrir dagdvöl aldraðra á vegum stofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum árið 2019 og eru án samnings um verð við Sjúkratryggingar Íslands.

Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

Þrátt fyrir að ráðherra áformi ekki útvistun á þjónustu fleiri hjúkrunarheimila til einkahlutafélaga er tekið fram að það geti þurft að bjóða út rekstur nýrra hjúkrunarheimila. Ráðherra vitnar þar í lög um opinber innkaup, þar sem einkahlutafélög, sjálfseignarstofnanir og aðrir hafa tækifæri til að bjóða í og taka að sér rekstur hjúkrunarheimila.

Aðspurð segir Svandís að ekki hafi komið til álita að setja á laggirnar stofnun sem taki yfir starfsemi þessara hjúkrunarheimila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert