Árni Gils Hjaltason hefur verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps, en dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Fréttablaðið greinir frá þessu, en dómur í málinu hefur ekki verið birtur.
Árni Gils hafði áður hlotið jafn þungan dóm í héraði fyrir sama mál en Hæstiréttur felldi dóminn úr gildi og sagði að málið hefði ekki verið nægilega vel rannsakað til þess að hægt væri að kveða upp dóm í málinu. Nú hefur hann verið sakfelldur að nýju, fyrir að hafa stungið annan mann í höfuðið með hnífi við Leifasjoppu í Breiðholti í mars árið 2017.
Aðalmeðferð í málinu fór fram að nýju í september, en fyrr á árinu hafði verið tekist á um matsgerðir Sebastian Kunz meinafræðings, en farið var fram á það af hálfu Árna Gils að annar matsmaður yrði fenginn til þess að meta málið þar sem Kunz hefði gert sig vanhæfan til þess. Þeirri kröfu var hafnað.