Nokkuð er um að lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu berist tilkynningar um fólk, sem er við sveppatínslu á umferðareyjum. Slíkt athæfi er ekki ólöglegt og því er ekkert aðhafst, nema útlit sé fyrir að athæfið hafi truflandi áhrif á umferð. Sumir tína matsveppi, aðrir eru að leita að sveppum sem veita vímuáhrif.
„Við fáum stundum símtöl um þetta,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. „En það varðar ekki við lög að tína sveppi né að neyta þeirra,“ bætir Ásgeir við og segir að vonandi sýni fólk ábyrgð við neyslu sveppanna hvort sem tilgangurinn sé að komast í vímu eða neyta þeirra til matar. Við aðhöfumst ekkert nema eitthvað bendi til þess að fólk sé að skapa hættu í umferðinni.“
Þórólfur Jónsson, deildarstjóri náttúru og garða hjá Reykjavíkurborg, segir að ullserkur, sveppur sem gjarnan vex á umferðareyjum og í nágrenni þeirra, sé góður matsveppur og að hann viti til þess að margir tíni hann. Helsti sveppatíminn sé í ágúst og fram í september, en þar sem tíð hafi verið góð megi enn tína sveppi. „Þekking fólks á matsveppum á Íslandi hefur farið vaxandi undanfarin ár,“ segir Þórólfur. „Svo er talsvert um að erlendir ríkisborgarar, t.d. frá Austur-Evrópu, sem hafa sest hér að séu að tína þessa sveppi. Fólk þekkir þetta þá frá sínu heimalandi.“
Best er að tína umræddan ullserk þegar hann er ungur, þá er hann eins og líti hvít kúla, segir Þórólfur. „Þegar hann eldist verður hann kolsvartur og úr honum lekur þá svartur vökvi, svipaður og blek og þess vegna er hann stundum kallaður bleksveppur,“ segir hann.
Spurður hvort það geti talist ákjósanlegt að tína sveppi á umferðareyjum með tilliti til mengunar og annarra óhreininda segist Þórólfur ekki mæla með því. „Það hefur reyndar ekki verið skoðað, en líklega er eitthvert svifryk í þessum sveppum. Ég held að það sé ekki ráðlegt að borða sveppi sem vaxa nálægt stórum umferðargötum.“
Þórólfur segist hafa haft spurnir af því að verið sé að tína sveppi á umferðareyjum til að komast í vímu af þeim. „Það er auðvitað þekkt að sumir sveppir innihalda efni sem veldur ofskynjunum. Mér skilst að slíkir sveppir séu yfirleitt frekar litlir og óásjálegir og það er svo sem lítið annað að gera en að vona að þeir sem þetta gera hafi einhverja þekkingu á sveppum. Reykjavíkurborg hefur engin afskipti af þessu.“
Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, doktor í sveppafræði við Náttúrufræðistofnun Íslands segir að trjónupeðla (Psilocybe semilanceata), sem er lítill hattsveppur, sé sá sveppur, sem fólk tínir í því skyni að komast í vímu. Hún segir sveppinn vaxa í öllu graslendi og að aðaltími hans sé síðla hausts. „Fólk þurrkar þá og borðar eða sýður þá og drekkur af þeim te. Í trjónupeðlu er taugaboðefni sem líkist taugaboðefnum líkamans og virkar á miðtaugakerfið eins og t.d. heilann. Þannig finnur fólk fyrir ofskynjunum,“ segir Guðríður Gyða.
Að sögn Guðríðar Gyðu gætu þeir, sem ekki þekkja nægilega vel til sveppa, auðveldlega tekið eitraða sveppi í misgripum því nokkrir slíkir séu áþekkir trjónupeðlu. Hún segir að lítið hafi borið á sveppaneyslu í því skyni að komast í vímu fyrr en á allra síðustu áratugum, en það sé þekkt úr menningu fornra þjóða í tengslum við trúariðkun. „Það er ólíklegt að fólk deyi af því að borða sveppinn sem slíkan, en að borða hann gæti aftur á móti leitt til óábyrgrar hegðunar sem gæti dregið til dauða, því fólk skynjar umhverfi sitt á allt annan hátt undir ofskynjunaráhrifum,“ segir hún.
Hún segir að sveppir geti ekki skilið út óæskileg efni sem berast í þá og því safnist þau fyrir í þeim. „Eins og t.d. þungmálmar, tjara og svifryk sem kemur úr umferðinni. Það er ekki æskilegt að neyta sveppa sem vaxa í grennd við mikla umferð.“