Sérstakt sé frumvarp sett einum til höfuðs

Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri veiðifélagsins Strengs í Vopnafirði.
Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri veiðifélagsins Strengs í Vopnafirði. mbl.is/Hari

„Ef að það er lagafrumvarp sett einum til höfuðs, þá er það náttúrlega sérstakt í sjálfu sér. Ég vona að það sé nú ekki verið að gera það,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri veiðifélagsins Strengs í samtali við mbl.is, spurður hvort hann telji nýtt frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra beinast sérstaklega að breska auðmanninum Jim Ratcliffe, sem á stærstan hluta í veiðifélaginu.

Frumvarpinu er ætlað að koma í veg fyr­ir að einn aðili geti, í krafti eign­ar­halds síns á meiri­hluta laxveiðijarða inn­an veiðifé­lags, „drottnað yfir mál­efn­um veiðifé­laga“ og verði það að lögum mun einn aðili og aðilar honum tengdir ekki geta haft meira en 30% atkvæðavægi á fundum veiðifélaga, þar sem sjö eða fleiri lögbýli hafa atkvæðarétt.

Í greinargerð frumvarpsins er sérstaklega fjallað um al­geng­ara hafi orðið á und­an­förn­um árum að laxveiðijarðir séu keypt­ar í fjár­fest­inga­skyni, sem leiði til þess að minni hluti inn­an veiðifé­laga verði áhrifa­lít­ill.

Gísli segist taka undir orð Jóns Helga Björnssonar, sem sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að málið væri dálítið flókið þar sem þeim sem eiga jarðir við laxveiðiár er gert skylt að vera í veiðifélögum.

Jim Ratcliffe með fyrsta laxinn sem landað var í Selá …
Jim Ratcliffe með fyrsta laxinn sem landað var í Selá á liðnu sumri. mbl.is/Einar Falur

„Það í sjálfu sér er brothætt og umdeilt hjá sumum, hvort það sé hægt að skikka menn í veiðifélög,“ segir Gísli, en bætir því við að sú lagasetning hafi skapað umgjörð sem hafi gert íslenskar laxveiðiár að því sem þær eru. Hann telur varhugavert að fara að „hræra mikið í þessu“ og segist ekki alveg skilja hvert markmið frumvarpsins sé, hverra hag sé verið að vernda.

„Hafa minnihlutar í veiðifélögum verið kúgaðir? Í öllum félögum er lýðræðislegt að meirihluti ráði að einhverju leyti og því spyr maður sko, hefur minnihluti verið kúgaður einhversstaðar? Er verið að bregðast við einhverju sem hugsanlega kann að geta gerst? Við hverju er verið að bregðast?“ spyr Gísli, sem telur ýmsar spurningar vakna þegar réttindi þeirra sem skyldaðir eru til að vera í veiðifélögum séu takmörkuð með einhverjum hætti.

Frá Selá í Vopnafirði.
Frá Selá í Vopnafirði. mbl.is/Hari

„En alveg óháð öllu sem okkur finnst um þetta þá höfum við alltaf sagt að það beri að fara mjög varlega með þessi lög því þau eru eins og menn vita mjög mikið hagsmunamál fyrir veiðifélög,“ segir Gísli.

Hann segir að fleiri veiðifélög séu til á landinu þar sem einstakir aðilar eigi mjög stóran hluta, jafnvel allar árnar og hann viti ekki hvernig menn ætli að fara með það. „Ég er ekki alveg farinn að sjá fyrir mér afleiðingar og hvaða markmiði eigi að ná fram með þessum lögum, eða hvort ráðherrann er bregðast við einhverju sem einhver er að biðja hann um að gera,“ segir Gísli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert