Verkefnum fyrir 88,8 milljarða á höfuðborgarsvæðinu flýtt

Miklabraut. Hún á að vera komin í stokk árið 2026.
Miklabraut. Hún á að vera komin í stokk árið 2026. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Miklabraut í stokk, borgarlína, stokkur í Garðabæ og úrbætur á Holtavegi að Stekkjarbakka eru meðal þeirra verkefna á höfuðborgarsvæðinu sem verður flýtt samkvæmt endurskoðaðri samgönguáætlun. 

Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra, á fundi ráðuneytisins í morgun þar sem upp­færð og end­ur­skoðuð sam­göngu­áætlun fyr­ir tíma­bilið 2020-2034 var kynnt. 

Sigurður Ingi á fundinum í morgun.
Sigurður Ingi á fundinum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ráðherra nefndi sex verkefni á fundinum, sem falla undir þau sem á að flýta. Áætlað er að borgarlína muni kosta 49,6 milljarða króna, að setja Miklubraut í stokk muni kosta 21,8 milljarða, stokkur í Garðabæ 7,6 milljarða, leiðin Holtavegur — Stekkjabakki 2,2 milljarð, leiðin Rjúpnavegur að Breiðholtsbraut 1,6 milljarða og sérstök fjárveiting fyrir höfuðborgarsvæðið til að byggja upp hjóla- og göngustíga verður 6 milljarðar.

Alls eru þetta 88,8 milljarðar. 

Á fundinum kom fram á hverju af þeim fjögurra ára tímabilum sem áætluninni er skipt niður í á að vinna hvert verkefni. Klára á Holtaveg — Stekkjarbakka og Rjúpnaveg — Breiðholtsbraut fyrir 2024-'25 og stokka á Miklubraut og í Garðabæ á að klára fyrir lok tímabilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert