Alltaf verði ein jarðgöng í gangi

Múlagöng. Mikil aukning hefur orðið á umferð um þau og …
Múlagöng. Mikil aukning hefur orðið á umferð um þau og uppi eru hugmyndir um að breikka þau. Ljósmynd/Vegagerðin

Sérstök jarðgangaáætlun er hluti uppfærðrar samgönguáætlunar sem Sigurður Ingi Jóhannsson, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra, kynnti á fundi ráðuneytisins í morgun. „Stefnan er að alltaf verði ein jarðgöng í gangi hverju sinni,“ sagði ráðherra.

Sú samgönguáætlun sem nú er í gildi er fyrir árin 2019 — 2033,  en á fundinum kynnti sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra endurskoðaða áætlun frá og með næsta ári til ársins 2034.

Af þeim jarðgöngum sem eru á endurskoðaðri áætlun eru göng um Reynisfjall, Fjarðarheiði og Miðfjörð. „Við ætlum að hringtengja Mið-Austurland með jarðgöngum,“ sagði ráðherra. Flýta á göngum um Fjarðarheiði frá því sem áður hafði verið áformað og eiga framkvæmdir nú að hefjast við þau árið 2022. 

Þá kynnti ráðherra möguleg jarðgangaverkefni á fundinum. Göng um Ísafjörð til Súðavíkur sem myndu vera á bilinu 2,6 — 6,8 kílómetra löng. „Hugsanlega væri hægt að leysa það með vegskálum,“ sagði ráðherra og það sama ætti við um göng um Hvalnesskriður sem yrðu 3 — 6 km löng.

Þá eru göng frá Fljótum að Hólsdal í Siglufirði, um Siglufjarðarskarð sem yrðu 5,2 km á listanum yfir möguleg göng og einnig breikkun Múlaganga vegna mikillar umferðar um þau.

Í áætluninni segir að stefnt sé að gjaldtöku af umferð í jarðgöngum á Íslandi. „Sú innheimta mun fjármagna rekstur og viðhald ganganna, sem og að standa undir því sem uppá vantar í framkvæmdakostnað,“ segir í áætluninni.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra á fundinum í morgun.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra á fundinum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka