Stefna byggingarverktakans Sérverks ehf. á hendur Reykjavíkurborg vegna innviðagjalda verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Borginni er aðallega stefnt til endurgreiðslu oftekinna gjalda en til vara að ólögmæti innviðagjalds verði viðurkennt.
Sérverk segir að álagning innviðagjaldsins sé ólögmæt. Tekjuöflun sveitarfélaga verði að byggjast á heimild í lögum, óháð því hvort um er að ræða skattheimtu eða gjald fyrir þjónustu.
Sérverk keypti Kuggavog 5 af Vogabyggð ehf. og tók m.a. yfir skuldabréf vegna innviðagjalda. Uppgreiðsluverð þess í október 2018 var rúmlega 120 milljónir króna. Sérverk skrifaði borginni 11. september 2018 og sagði að álagning innviðagjaldsins stæðist ekki því ekki væru heimildir í lögum til innheimtu þess. Því síður rúmaðist innviðagjaldið innan tekjuöflunarheimilda sem borgin hefði á einkaréttarlegum grunni. Fyrirtækið krafðist þess að fá innviðagjaldið endurgreitt. Borgin hafnaði því alfarið.
Í stefnunni er m.a. vitnað í minnisblað til borgarstjóra þar sem kemur fram að áformaðar séu framkvæmdir í hverfinu við gerð gatna, torga, stíga, nýrra stofnlagna, strandstíga, útsýnis- og göngupalla, landfyllinga og grjótvarna. Einnig göngubrú og stíflu við Háubakkatjörn, brú yfir Naustavog, færslu á Kleppsmýrarvegi og færslu skolpdælustöðvar.