Opin fyrir framleiðslu iðnaðarhamps

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, er opin fyrir því að endurskoða laga- og regluverk um framleiðslu iðnaðarhamps hér á landi. 

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, spurði ráðherra hvort hún sæi tækifæri í að skoða nánar hvernig Íslendingar geta tileinkað sér iðnaðarhamp og hugsanlega myndað sér sérstöðu í vinnslu, meðhöndlun og túlkun á því hráefni. 

Iðnaðarhampur er heiti yfir þá tegund kannabisstofnsins sem er notaður til iðnaðar, cannabis sativa, og hefur lágt gildi virka efnisins THC. Því getur hann ekki verið notaður sem vímugjafi. 

Halldóra benti á að iðnaðarhampur er nýttur á marga ólíka vegu og að hátt í 25.000 mismunandi vöruflokkar eru framleiddir úr honum, til dæmis í fata- og bíliðnaði og tók vörumerkin Levi's og Porsche sem dæmi. 

Halldóra sagði tilraunaræktun á cannabis sativa lofa góðu hér á landi og nefndi hún að ræktun iðnaðarhamps hafi jákvæð áhrif á loftslagsmál. „Fáar ef nokkrar plöntur sem eru hæfar til ræktunar binda koltvísýring jafn hratt og flestar vörur úr iðnaðarhampi koma í stað annarra mengandi valkosta, hamptrefjaplötur í stað koltrefja og hampsteypa í stað steinsteypu,“ sagði hún. 

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, spurði ráðherra um möguleika á framleiðslu …
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, spurði ráðherra um möguleika á framleiðslu iðnaðarhamps hér á landi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hampur sem slíkur er ekki eiturlyf“

Þórdís Kolbrún tók vel í fyrirspurn Halldóru en lagði áherslu á að því skyldi haldið til haga að hampur sem slíkur er ekki eiturlyf. „Það er munur á hampræktun til iðnaðarnota og kannabisræktun til lyfjagerðar og vímuáhrifa,“ sagði ráðherra. 

Hún gat ekki svarað því hvort ræktun iðnaðarhamps kalli á sérstaka endurskoðun laga en sagðist vera opin fyrir því að kanna hvort svo sé. „Hampur án THC er því eitthvað sem ég er opin fyrir að skoða og hvort við getum með einhverjum hætti lagað regluverkið þannig að það auðveldi framleiðslu eða annað sem einstaklingum hér á landi dettur í hug að búa til verðmæti úr eða finna leiðir til að skapa frekari verðmæti eða störf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert