Samgönguáætlun hvorki kynnt ríkisstjórn né þingflokkum

Sigurður Ingi á fundinum í morgun.
Sigurður Ingi á fundinum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti uppfærða og endurskoðaða samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020 – 2034 hvorki fyrir ríkisstjórn né þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna áður en hann kynnti hana á opnum morgunverðarfundi ráðuneytisins í Norræna húsinu í morgun.

Fréttablaðið greindi frá því fyrr í dag að ríkisstjórnarsamstarfið titraði vegna blaðamannafundarins þar sem drög að nýrri samgönguáætlun voru kynnt. Þar sagði að ráðherra hefði ekki haft fyrir því að kynna drögin fyrir ríkisstjórn eða þingflokkum stjórnarflokkanna fyrir fundinn.

„Það er alveg rétt að hann fór ekki sérstaklega með þetta fyrir ríkisstjórn eða neitt slíkt. Það var haldinn fundur í meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar í gær þannig sá hópur fékk kynningu fyrir fundinn í morgun en þetta hafði ekki komið fyrir þingflokkinn áður,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, í samtali við mbl.is.

„Ég var á fundi í morgun þegar hann [Sigurður Ingi] var að kynna þetta og hef ekki séð kynninguna en hef aðeins verið að skoða þetta. Ég hef ekkert verið að leggjast yfir samgönguáætlunina og get ekki tjáð mig sérstaklega um hana en svona í fyrsta kasti líst mér ágætlega á þetta. En ég þarf að skoða þetta lið fyrir lið,“ bætti hún við.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

Hún sagði jafnframt að í fljótu bragði liti nýja samgönguáætlunin þokkalega út. „Auðvitað eru sviptingar og breytingar, það er verið að tala um aðra hluti en var gert ráð fyrri, eins og innheimtu veggjalda og slíkt. En þetta er stór plagg sem þarf að leggjast yfir og það gerist ekki á örfáaum klukkutímum.“

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist lítið hafa um málið að segja á þessu stigi.

„Samgönguráðherra var auðvitað í dag að kynna sínar hugmyndir byggðar á tillögum samgönguráðs en tillagan á eftir að fá umfjöllun bæði á vettvangi ríkisstjórnarinnar og þingflokka ríkisstjórnarinnar. Svo auðvitað eðlilega málsmeðferð á Alþingi.“

Ekki hefur náðst í Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra eða Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra vegna málsins.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert