Karlmaður hefur verið dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi og til að greiða rúmlega 1,7 milljónir í skaðabætur og um 5,5 milljónir í sakarkostnað fyrir héraðsdómi og Landsrétti fyrir kynferðisbrot gegn barnabarni sínu. Landsréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms í málinu.
Í dómi Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að brotin hafi átt sér stað á heimili mannsins þegar drengurinn var níu til ellefu eða tólf ára gamall. Snerti maðurinn kynfæri drengsins og fróaði honum.
Fram kemur í dóminum að maðurinn hafi jafnframt sýnt drengnum myndir af kynfærum kvenna og rætt við hann um kynferðisleg málefni.
Afinn neitaði sök fyrir dómi, en sagði að drengurinn hafi í eitt skipti byrjað að fróa sér undir sæng þegar hann var að lesa fyrir drenginn. Hafi hann þá rætt við hann um sjálfsfróun. Þá hafi hann lyft sænginni og haft orð á því hversu stór limur drengsins hafi verið og spurt hvort hann mætti snerta hann.
Í niðurstöðu dómsins segir að maðurinn hafi með þessu athæfi gerst sekur um kynferðisbrot, auk þess sem framburður drengsins er í öðrum atriðum málsins talin trúverðugur og var hann lagður til grundvallar við úrlausn málsins. Telur dómurinn ekki óvarlegt að slá því föstu að fjöldi tilvika þar sem afinn braut á drengnum hafi verið að minnsta kosti sjö.
Sem fyrr segir var afinn dæmdur í þriggja ára og sex mánaða fangelsi og til greiðslu bóta upp á 1,7 milljónir og allan sakarkostnað.