HS Orka hefur náð að minnka þörf sína á kaupum á toppafli á álagstímum við dýru verði og gert sölu fyrirtækisins sjálfbærari með því að kaupa raforku af smávirkjunum. Hefur fyrirtækið á örfáum árum safnað í kringum sig 13 smávirkjunum af ýmsum stærðum um allt land og þrjár virkjanir til viðbótar bætast í hópinn á næsta ári.
Þær 13 smávirkjanir sem HS Orka er í viðskiptum við eru með tæplega 24 megavött í uppsettu afli og framleiða um 147 gígavattstundir á ári. Að auki eru þrjár virkjanir í byggingu sem teknar verða í notkun nú í janúar og síðar á því ári. Þá verður uppsett afl smávirkjana sem fyrirtækið er í viðskiptum við 42 MW og framleiðslan 247 GWst á ári. Þetta er svipuð framleiðsla og 4. stærsti orkuframleiðandi landsins er með og meira uppsett afl.
Kom þetta fram í erindi Friðriks Friðrikssonar, framkvæmdastjóra framleiðslu og sölu hjá HS Orku, á fundi sem Orkustofnun hélt í gær um uppbyggingu smávirkjana á Íslandi.
Fram kom í máli Friðriks að samskiptin við eigendur og rekstraraðila smávirkjana hefðu gengið afar vel enda reynt að haga samningum og rekstri þannig að allir hafi hag af samstarfinu. Gerðir eru orkusamningar til 7 til 15 ára sem eigendur geta farið með í banka til að fá fjármögnun fyrir framkvæmdirnar.
Aukinn áhugi er hjá orkufyrirtækjum og landeigendum að byggja upp smávirkjanir og er fjöldi verkefna í þróun um allt land. Endurspeglast það í miklum áhuga á fundi Orkustofnunar.
Fram kom í máli Rein Husebø, fulltrúa samtaka smávirkjana í Noregi, að hluti árlegrar ráðstefnu samtakanna sem haldin verður í Stavangri á næsta ári verður helgaður þróun smávirkjana á Íslandi, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.