Landsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefst á Grand hóteli Reykjavík í dag og stendur yfir alla helgina. Þetta er ellefti landsfundur flokksins og í fyrsta sinn verður fundurinn pappírslaus og kjötlaus.
Fram kemur í tilkynningu frá flokknum að veitingar voru valdar með hliðsjón af kolefnisspori.
Loftslagsmál verða rauður þráður landsfundar, en stefna flokksins byggist á fjórum grunnstoðum; umhverfisvernd, kvenfrelsi, alþjóðlegri friðarhyggju og félagslegu réttlæti.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, flytur stefnuræðu sína klukkan 17.30 í dag. Hún segir margt hafa breyst á skömmum tíma er snertir áherslu á umhverfis- og loftslagsmál hér á landi.
„Þessi mál verða mjög áberandi á fundi Vinstri grænna um helgina og verður m.a. sérstakt loftslagspallborð þar. Á örfáum árum hefur þetta breyst frá því að vera afmarkað viðfangsefni eins ráðherra yfir í málaflokk sem allir ráðherrar og þingflokkar vinna að og taka afstöðu til,“ sagði Katrín í samtali við Morgunblaðið í gær.
Alls liggja 45 tillögur að ályktunum fyrir fundinn. Snúast þær m.a. um heilbrigðismál, flugsamgöngur, smávirkjanir, málefni flóttamanna og hælisleitenda, loftslagsmál, innflytjendur, vígvæðingu á norðurslóðum og stjórnarskrá Íslands.
Þá verður stjórn flokksins endurnýjuð að stærstum hluta, en kosið verður til embættis varaformanns, ritara og gjaldkera um helgina. Líklegast þykir að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, verði næsti varaformaður Vinstri grænna, en hann hefur einn lýst opinberlega yfir áhuga sínum á embættinu.
Loftslagsmál verða fyrirferðamikil á fundinum líkt og fram hefur komið og upp úr hádegi á laugardag verða pallborðsumræður um loftslagsmálin undir stjórn Edwards Huijbens varaformanns VG. Gestir pallborðsins koma úr atvinnulífi, verkalýðshreyfingunni og umhverfisfræðum.