Öllum steinum velt við á LSH

Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans
Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans mbl.is/Golli

Viðhaldi verður að ein­hverju leyti frestað, ítr­asta aðhalds gætt við inn­kaup, launa­fyr­ir­komu­lag end­ur­skoðað og ekki verður ráðið í  viss­ar stöður sem losna. Þetta er meðal þeirra sparnaðaraðgerða sem ráðist verður í á Land­spít­ala. Gangi þær eft­ir verður kostnaður við rekst­ur spít­al­ans skor­inn niður um tæp­an millj­arð á þessu ári og tvo og hálf­an millj­arð á árs­grund­velli, þ.e. á næsta ári. 

Sex mánaða upp­gjör spít­al­ans, sem birt var í sum­ar, sýndi að að óbreyttu stefndi í hátt í fimm millj­arða króna framúr­keyrslu í ár. Þess­ar aðgerðir eru til þess ætlaðar að bregðast við því. Lög­um sam­kvæmt hef­ur heil­brigðisráðherra verið greint frá stöðu mála og Páll Matth­ías­son for­stjóri Land­spít­ala seg­ir gott sam­starf við ráðuneyti og Alþingi um mögu­leg­ar lausn­ir á þess­um vanda.  Hann seg­ir að föst hagræðing­ar­krafa upp á 5-7% hafi verið lögð á all­ar stoðdeild­ir spít­al­ans og að nokk­urs óróa gæti meðal starfs­fólks vegna fyr­ir­hugaðra aðgerða.

Frá Landspítalanum.
Frá Land­spít­al­an­um. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Laun stjórn­enda lækkuð um 5%

Meðal þeirra aðgerða sem þegar hef­ur verið ráðist í er að lækka laun stjórn­enda, en laun fram­kvæmda­stjóra spít­al­ans, hafa nú verið lækkuð um 5%, jafn­framt því að fækkað var í fram­kvæmda­stjórn­inni um næst­um því helm­ing eft­ir skipu­lags­breyt­ing­ar um síðustu mánaðamót.  Spurður hvort fólk hafi verið sátt við að láta lækka laun sín seg­ir Páll full­an skiln­ing hafa verið á því. „Þegar staðan er svona, þá átt­ar fólk sig á því að það þarf að leggja sitt af mörk­um,“ seg­ir Páll.

Önnur aðgerð sem þegar er kom­in í fram­kvæmd er aðhald í inn­kaup­um, ýmis kon­ar risnu og ferðakostnaði.  Hef­ur ekki verið aðhald að þessu leyti hingað til? „Jú, að sjálf­sögðu. En það má alltaf gera bet­ur, alltaf skoða mál­in á nýj­an hátt og það er það sem við erum að gera núna. Inn­kaup spít­al­ans eru hátt á ann­an tug millj­arða á ári, ef okk­ur tekst með aukn­um fókus og aðhaldi að spara 1%, þá erum við strax far­in að tala um ríf­lega 100 millj­óna sparnað.“

Landspítali
Land­spít­ali mbl.is/Þ​órður

Forðast upp­sagn­ir

Páll seg­ir að fresta eigi viðhalds­verk­efn­um eins og hægt verði. Und­an­farið hef­ur ít­rekað komið upp mygla og ann­ars kon­ar skemmd­ir á hús­næði spít­al­ans - er hægt að fresta viðhaldi? „Við erum reynd­ar tals­vert bet­ur í sveit sett núna en við vor­um varðandi fjár­magn til end­ur­bóta og viðhalds þannig að staðan er miklu betri en hún var fyr­ir nokkr­um árum. Við telj­um að þó við drög­um aðeins úr þar, þá komi það ekki að sök.“

Páll seg­ir að forðast verði í lengstu lög að segja fólki upp. Nýta eigi eðli­lega starfs­manna­veltu á þess­um stóra vinnustað til að fækka starfs­fólki. Leit­ast eigi við að ráða sem minnst í staðinn fyr­ir fólk sem seg­ir upp eða hætt­ir vegna ald­urs. „Þetta er næst­um því 6.000 manna vinnustaður með mörg hundruð manna starfs­manna­veltu á ári og við telj­um að þarna gef­ist tæki­færi til sparnaðar,“ seg­ir Páll.

Kjara­samn­ing­ar hafa reynst dýr­ir

Eitt af því sem stjórn spít­al­ans skoðar nú í sam­ráði við stjórn­völd eru launa­bæt­ur sem spít­al­inn gæti hugs­an­lega fengið frá rík­inu. Páll seg­ir að með því sé átt við að kostnaður hafi verið van­met­inn við ýmsa kjara­samn­inga sem hafi verið gerðir við helstu stétt­ir við spít­al­ann og um sé að ræða mjög háar upp­hæðir sem hlaupi á millj­örðum.   „Land­spít­ali sem­ur ekki um laun starfs­manna, það ger­ir rík­is­valdið sem svo greiðir stofn­un­un­um þann kostnað sem af hlýst; svo­kallaðar launa­bæt­ur. Í samn­ingi sem gerður var við lækna 2015 var mörg ný­lunda og hann var ekki verðmet­inn rétt af samn­ingsaðilum, þannig að hann hef­ur kostað okk­ur u.þ.b. hálf­um millj­arði meira á hverju ári síðan þá en til stóð. Við erum þessa dag­ana að fara yfir þessa út­reikn­inga með stjórn­völd­um og fjár­laga­nefnd Alþing­is.“

Páll seg­ir að nú verði aðhalds gætt sem aldrei fyrr í lyfjainn­kaup­um. Spurður nán­ar út í fyr­ir­komu­lag þess seg­ir hann að það fel­ist m.a. í fræðslu til lækna um ódýr­ustu lyf­in hverju sini og eft­ir­fylgd með því að spít­al­inn sé að nota ódýr­ustu sam­heita­lyf verði auk­in. Einnig á að nota rann­sókn­ir á mark­viss­arri hátt. 

Hafið þið verið að gera rann­sókn­ir að óþörfu? „Nei, það er ekki málið, svar­ar Páll. „Held­ur snýst þetta um bætta ákv­arðana­töku og mark­viss­ari rann­sókn­ir.“

Frá Landspítalanum.
Frá Land­spít­al­an­um. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Breyt­ing­ar á kjör­um 

Til stend­ur að gera ýms­ar breyt­ing­ar á kjör­um starfs­fólks. Til að mynda til­rauna­verk­efnið Heklu­verk­efni, sem fólst m.a. í álags­greiðslum til hjúkr­un­ar­fræðinga til að fást við langvar­andi mönn­un­ar­vanda á spít­al­an­um verður lagt af. Til stend­ur að það verk­efni falli niður við gerð næstu kjara­samn­inga. Vakta­skipu­lag, sér­stak­lega lækna, verður end­ur­skoðað og sömu­leiðis greiðslur vegna fastr­ar yf­ir­vinnu starfs­fólks. Leit­ast verður við að tryggja að starfs­fólk taki vaktafríi og áunn­inn frí­töku­rétt út, frek­ar en að slík­ur rétt­ur safn­ist upp eða verði greidd­ur út. „Yfir 70% af kostnaði spít­al­ans eru laun,“ seg­ir Páll.

Aðalfókus­inn að vernda þjón­ust­una

Ótt­ist þið ekki að missa starfs­fólk við þess­ar breyt­ing­ar? „Við von­um að við mæt­um áhyggj­um starfs­fólks með bættu vinnu­skipu­lagi. En auðvitað taka aðhaldsaðgerðir alltaf á,“ seg­ir Páll. 

Eru þetta mestu aðhaldsaðgerðir sem spít­al­inn hef­ur farið í? „Nei, þær voru meiri eft­ir hrunið þegar spít­al­inn var tek­inn niður kostnaðarlega um 20%. Við erum ennþá að súpa seyðið af þeim.“

Það er ekk­ert nýtt að spít­al­inn þurfi að spara.... „Nei, það er ekk­ert nýtt. En núna þurf­um við að gera enn bet­ur.“

Er ekki von­laust verk­efni að reka Land­spít­al­ann inn­an fjár­laga? „Það er enn ekki búið að samþykkja fjár­lög, þannig að við vit­um ekki enn hvað við fáum, hver ramm­inn verður. Okk­ar mark­mið er alltaf ann­ars veg­ar að ná jafn­vægi á milli þess að veita sem besta þjón­ustu og að vera með sem best­an vinnustað og hins veg­ar að vera inn­an ramma fjár­laga. Þetta er ákveðin jafn­vægisk­únst, en við vor­um t.d. síðast inn­an fjár­laga árið 2016 og ekki langt frá því 2017. Aðalfókus­inn er, og mun alltaf vera, að vernda þjón­ustu við sjúk­linga“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert